Skagstrendingar mótmæla öllum hugmyndum um lögþvingaðar sameiningar sveitarfélaga

Húnahornið segir frá því að sveitarstjórn Sveitarfélagsins Skagastrandar mótmæli öllum hugmyndum um lögþvingaðar sameiningar sveitarfélaga á Íslandi og hvetur ráðamenn til þess að virða hagsmuni íbúa og sjálfsákvörðunarrétt í eigin málefnum. Erfitt er að sjá fyrir sér að hægt sé að svipta hluta íbúa landsins kosningarétti á grundvelli íbúafjölda.

Þetta kemur fram í fundargerð sveitarstjórnarSkagastrandar frá 16. október síðastliðnum.

„Á fundinum var lagt fram erindi innviðaráðuneytisins um opið samráð um frumvarp til laga um breytingar á sveitarstjórnarlögum, m.a. að ráðherra skuli eiga frumkvæði að sameiningu sveitarfélaga sem íbúafjöldi er lægri en 250.

Frumvarpið má sjá hér en samráði um það í Samráðsgátt stjórnvalda er lokið.

Stjórn Samtaka sveitarfélaga á Norðurlandi vestra sendu umsögn um frumvarpið og leggst hún gegn því að landshlutasamtökum verði fært stjórnsýslulegt hlutverk eða falið að taka stjórnvaldsákvarðanir um réttindi og skyldur einstaklinga eða lögaðila. Stjórninni finnst farsællegast að landshlutasamtök haldi sínu núverandi hlutverki sem svæðisbundin hagsmunasamtök sveitarfélaga, sem stuðla að samráði, stefnumótun og sameiginlegri hagsmunagæslu án beinna valdheimilda gagnvart borgurum.

Stjórnin telur jafnframt varhugavert að setja landshlutasamtök í þá aðstöðu að veita umsagnir um sameiningu sveitarfélaga, þar sem slík hlutverk geti grafið undan hlutleysi, trausti og þjónustu- og samráðshlutverki samtakanna gagnvart öllum aðildarsveitarfélögum. Þá hvetur stjórnin löggjafann til að tryggja að landshlutasamtök verði áfram vettvangur samráðs og hagsmunagæslu án stjórnsýsluvalds.“ segir í frétt Húnahornsins.

Þá sendi Húnaþing vestra einnig ítarlega umsögn við frumvarpið sem lesa má hér.

Fleiri fréttir