Snyrtu umhverfið á degi íslenskrar náttúru
Dagur íslenskrar náttúru var haldinn hátíðlegur sl. mánudag, 16. september, og af því tilefni voru einstaklingar, skólar, stofnanir, fyrirtæki og félagasamtök hvött til að hafa daginn í huga í starfsemi sinni. Í tilefni dagsins vörðu allir nemendur Höfðaskóla á Skagaströnd tíma úti við og unnu verkefni af ýmsum toga. Nemendur unglingastigs tóku sig til og tíndu rusl í nágrenni skólans.
Meðfylgjandi mynd, sem birtist á vef skólans, sýnir ruslið sem safnaðist á einni klukkustund. Vilja nemendur hvetja bæjarbúa til að henda ekki rusli á víðavangi.