Stefnt að opnun Norðurstrandarleiðar í júní

Við norðurströndina, Ketubjörg á Skaga. Mynd:FE
Við norðurströndina, Ketubjörg á Skaga. Mynd:FE

Norðurstrandarleið eða Arctic Coast Way verður opnuð í sumar en verkefnið fékk nýlega úthlutað hæsta styrk ársins úr Uppbyggingarsjóði Norðurlands eystra eða fimm milljónir króna. Unnið hefur verið að undirbúningi verkefnisins undanfarin ár en hér er um að ræða 800 km leið meðfram strandlengju Norðurlands.

Markmiðið með Norðurstrandarleið er laða ferðamenn að strandlengjunni meðfram Norðurlandi, allt frá Húnaflóa til Bakkafjarðar, árið um kring, og hvetja þá til að staldra lengur við á svæðinu. Eins og Feykir.is hefur áður greint frá hefur Markaðsstofa Norðurlands umsjón með verkefninu sem tengist 17 sveitarfélögum og fjölmörgum fyrirtækjum á svæðinu.

Í hádegisfréttum RÚV í gær var rætt við Arnheiði Jóhannsdóttur, framkvæmdastjóra Markaðsstofu Norðurlands, sem segir að styrkur Uppbyggingarsjóðs skipti öllu máli. Nú sé hægt að klára þróunarvinnu og gera kynningarefni. „Núna er svo gríðarlegur áhugi erlendis frá að við bara erum að setja allt á fulla ferð. Við erum að fá stöðugar fyrirspurnir frá erlendum ferðaskrifstofum og frá blaðamönnum erlendis frá sem vilja vita meira og vilja byrja að fara þessa leið,“ sagði Arnheiður í samtali við RÚV.

Stefnt er að formlegri opnun Norðurstrandarleiðar á degi hafsins þann 8. júní.

Tengdar fréttir: Arctic Coastline Route - Strandvegur um Norðurland og Sveitarfélög í Húnavatnssýslum taka þátt í Arctic Coast Way, Norðurstrandarleið á góðum rekspöl.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir