Stólarnir sterkari í grannaslagnum

Hvergi gefið eftir í dag. MYNDIR: ÓAB
Hvergi gefið eftir í dag. MYNDIR: ÓAB

Lið Tindastóls og Kormáks/Hvatar mættust á Sauðárkróki í dag og var spilað við ágætar aðstæður. Rennislétt gervigras, 13 stiga hiti og pínu vindur. Þetta var fyrsti leikur beggja liða frá því í vetur en gæði leiksins voru engu að síður með ágætum og líkt og reikna mátti með í grannaslagnum þá var hvergi gefið eftir. Gestirnir vestan Vatnsskarðs voru 0-1 yfir í hálfleik en Stólarnir svöruðu með tveimur mörkum í síðari hálfleik og slógu því gestina út úr Mjólkurbikarnum. Lokatölur 2-1 fyrir Tindastól.

Lið Tindastóls kom mikið breytt til leiks frá því í vetur og til að mynda voru fjórir enskir strákar í liðinu, þrír nýsloppnir úr sóttkví og sá fjórði kom frá Víkingum að láni. Stuðningsmenn gestanna vildu meina að Króksarar vissu ekki hvort liðið þeir ættu að styðja því mögulega voru fleiri Skagfirðingar í liði Kormáks/Hvatar en í liði Tindastóls! 

Leikurinn fór fjörlega af stað og leikmenn skelltu sér í kröftugar tæklingar hvar sem því var við komið. Og þó kapp væri í mönnum var samt gaman að sjá að og heyra að menn fóru ekki yfir strikið.  Lið Tindastóls sótti meira framan af gestirnir voru hættulegir í sóknaraðgerðum sínum. Það var Hilmar Þór Kárason sem gerði fyrsta mark leiksins á 18. mínútu eftir hornspyrnu en þar leit Atli Dagur í marki heimamanna ekki vel út. Stólarnir reyndu að skerpa á sókninni og Benni sendi aukaspyrna í þverslána og tvívegis björguðu varnarmenn gestanna á síðustu stundu þegar jöfnunarmarkið virtist blasa við. Staðan 0-1 í hálfleik.

Jafnræði var með liðunum fyrstu mínúturnar í síðari hálfleik. Stólarnir settu boltann aftur í þverslá en K/H fengu þrjú góð færi í sömu sókninni til að bæta við forystuna en nú varði Atli Dagur þrívegis af snilld og máttu heimamenn þakka honum fyrir að lenda ekki í erfiðri stöðu. Spennan jókst nú og eftir að Bjarki Már, þjálfari Kormáks/Hvatar, hvarf af velli færðist spenna í þjálfaraslaginn á hliðarlínunni og lá við að uppúr syði. Stuttu síðar lyftist brúnin á Jay McDonough, þjálfari Tindastóls, þegar Halldór Broddi fylgdi vel eftir skoti Arnórs Guðjóns að marki gestanna á 72. mínútu sem Óli Grétar í markinu náði ekki að fanga. Staðan jöfn og aðeins fimm mínútum síðar létu heimamenn kné fylgja kviði. Arnór var keyrður klaufalega niður rétt utan teigs og Luke Rae, lipur tvítugur strákur, skoraði laglegt mark beint úr aukaspyrnunni. 

Nú hófu gestirnir að pressa hærra uppi á vellinum og það tók heimamenn smá tíma að átta sig. Gestirnir áttu eitt gott færi þegar þeir settu boltann í þverslána en annars héldu Stólarnir boltanum vel og kláruðu leikinn af öryggi.

Sigurinn í heildina sanngjarn og mikilvægur fyrir lið Tindastóls sem leit ágætlega út, liðið spilaði boltanum ágætlega en talsverður fjöldi leikmanna var að spila saman í fyrsta skipti. Lið Kormáks/Hvatar gerði vel og með smá heppni hefðu Húnvetningarnir getað slegið Stólana úr leik í dag. Þeir lágu aftarlega með vörnina en voru hættulegir þegar þeir náðu að brjótast fram völlinn.

Lið Tindastóls er því komið í 2. umferð Mjólkurbikarsins sem verður spiluð um næstu helgi en næstkomandi laugardag fá Stólarnir lið Samherja úr Eyjafirði í heimsókn.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir