Sundstaðir opna á ný

Sundlaugin á Skagaströnd. Mynd:skagastrond.is
Sundlaugin á Skagaströnd. Mynd:skagastrond.is

Það er engin spurning að margir hafa glaðst í morgun þegar sundlaugar landsins opnuðu á ný eftir átta vikna lokun. Flestar sundlaugar á Norðurlandi vestra tóku á móti gestum árla morguns, aðrar verða opnaðar síðar í dag en Blönduósingar þurfa þó að bíða enn um sinn þar sem ekki tókst að ljúka viðhaldi á sundlaugarsvæðinu í tæka tíð.

Sundlaugarnar á Hvammstanga, Sauðárkróki, Hofsósi og í Varmahlíð opnuðu allar í morgun. Á Skagaströnd verður opnað kl. 16:00 í dag og á Sólgörðum á morgun. Laugarnar verða opnar samkvæmt auglýstum opnunartíma en vetraropnun er enn í glidi.  

Á Blönduósi seinkar opnun sundlaugarinnar og er stefnt á að byrja að opna potta, vaðlaug og rennibrautir í lok vikunnar og sundlaugina í næstu viku. Ástæðan er sú að flísaviðgerðir sem ráðast þurfti í voru umfangsmeiri en reiknað var með og einnig hefur veðurfar sett strik í reikninginn.

Heiti potturinn á Hofsósi verður einnig lokaður þessa vikuna vegna viðhalds. Einnig er athygli vakin á því að vegna sundnámskeiða 1.-3. bekkjar í Árskóla, lokar laugin á Sauðárkróki milli kl. 13 og 16 mánudag og þriðjudag. 

Opnun lauganna er þó háð ýmsum takmörkunum sem gestir eru beðnir að kynna sér, t.d. er hámarksfjöldi gesta mismunandi eftir sundstöðum.

Sjá má reglur sundstaðanna hér:

Sundlaugin Hvammstanga,
Sundlaugin Skagaströnd,
Sundlaugar í Skagafirði.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir