Tæplega 25.000 umsóknir vegna minnkaðs starfshlutfalls

Sumardagur í Glaumbæ. Myndin tengist fréttinni ekki beint. Mynd af netinu.
Sumardagur í Glaumbæ. Myndin tengist fréttinni ekki beint. Mynd af netinu.

Við lok dags höfðu Vinnumálstofnun borist tæplega 25.000 umsóknir um atvinnuleysisbætur samhliða minnkuðu starfshlutfalli og gerir stofnunin ráð fyrir að skráð atvinnuleysi verði að meðaltali 7,5 – 8% nú í mars en fari hækkandi og verði 12-13% í apríl og 11-12% í maí. Þá er einnig gert ráð fyrir því að skráð atvinnuleysi fari lækkandi á tímabilinu maí til september en aukist á ný fram að áramótum í takt við hefðbundna árstíðarsveiflu. Spár Vinnumálastofnunar gera ráð fyrir því að skráð atvinnuleysi verði að meðaltali 8% á árinu 2020.

Samkvæmt fréttaskeyti hefur um helmingur umsókna komið frá starfsemi tengdri ferðaþjónustu. Um 15% allra umsókna eru frá einstaklingum sem starfa við farþegaflutninga og tengda þjónustu, um 22% er frá starfsmönnum í gisti- og veitingaþjónustu og um 11% tengjast annarri ferðaþjónustu. Þá koma 17% umsókna frá einstaklingum sem starfa innan atvinnugreina sem tengjast verslun og vöruflutningum og 11% frá þeim sem starfa við iðnað, byggingariðnað, sjávarútveg eða landbúnað. Flestar eru umsóknirnar á höfuðborgarsvæðinu, tæplega 17.000, um 3000 hafa borist af Suðurnesjum og um 1750 á Suðurlandi.

„Þessi mikli fjöldi umsókna sýnir að þessar aðgerðir sem við erum að grípa til eru að virka og markmiðið er að stuðla að því að vinnuveitendur haldi ráðningarsambandi við starfsmenn sína eins og unnt er. Við vitum að þetta er tímabundið ástand en við erum tilbúin til þess að bregðast frekar við ef þörf er á,” segir Ásmundur Einar Daðason, félags-og barnamálaráðherra.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir