Þrír fluttir á sjúkrahús eftir sprengingu í sumarbústað

Sumarbústaðurinn. SKJÁSKOT ÚR FRÉTT SJÓNVARPS
Sumarbústaðurinn. SKJÁSKOT ÚR FRÉTT SJÓNVARPS

Sprenging varð í sumarbústað í Langadal í Austur-Húnavatnssýslu, nærri bænum Geitaskarði, um klukkan ellefu í gærmorgun. Sex manns voru í bústaðnum þegar sprengingin varð, allt ungt fólk og voru þrír fluttir á slysadeild á Akureyri. Í frétt Rúv.is segir að tveir þeirra hafi verið með sjáanlega áverka en ekki var þó talið að þeir væru í lífshættu. 

Lögreglan á Norðurlandi vestra fékk tilkynningu um sprenginguna upp úr klukkan ellefu í gærmorgun. Fjölmennt lið lögreglu, slökkviliðs og björgunarsveita fór á vettvang frá Blönduósi og Skagaströnd. Einnig var óskað eftir aðstoð frá Sauðárkróki og Hvammstanga en sú beiðni var afturkölluð. 

Í samtali við Stefán Vagn Stefánsson yfirlögregluþjón í fréttum Sjónvarps í gær kom fram að fyrst var talið að snjóflóð hefði fallið á bústaðinn en svo hefði ekki verið. Líklegasta skýringin væri sú að sprengingin tengdist gasleka. Sömuleiðis kom fram í máli Stefáns Vagns að ekki væri grunur að eitthvað saknæmt hafi átt sér stað. 

Losa þurfti fólk úr braki bústaðarins þegar björgunarfólk kom á staðinn. Tæknideild Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu hélt norður til að rannsaka slysstaðinn. 

Heimild: Rúv.is

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir