Torskilin bæjarnöfn - Flaga í Vatnsdal

Flaga, Vatnsdal. Mynd: Ljósmyndasafn A-Húnavatnssýslu.
Flaga, Vatnsdal. Mynd: Ljósmyndasafn A-Húnavatnssýslu.

Engin tvímæli hafa leikið á því, að nafnið sje upprunalegt og óbrjálað. Þó finst ritað „Ftaugu“ í Auðunarmáldögum 1318 (DI, ll, 476. Þar eru Hvammskirkju „áskilin ítök í Flaugu í Vatnsdal“) og „Flagha“ í óvandaðri afskrift frá 1500. (DI. II. 330). Allstaðar annarsstaðar í fornbrjefum er ritað Flaga. (DI. IV. 7ll o. m. v. Sömuleiðis jarðabækurnar). Flögubæir eru 8 á landinu og hvergi hefir nafnið breyzt frá, uppruna. Flaga stendur að vestanverðu í Vatnsdal eins og menn vita. Landi þar er svo háttað, að fyrir utan og sunnan bæinn eru valllendisleiti með dældum á milli. Það eru auðsjáanlega uppgrónar skriður. Þessar öldumynduðu skriður eru hvað mestar yzt og syðst í túninu og liggja framundan allstórum giljum í hálsinum eða fellinu ofan við bæinn. Nokkuð sama má segja um Flögu í Hörgárdal.

Sunnan við túnið eru öldumyndaðar skriður, að vísu ekki mjög miklar um sig, sem fallið hafa úr fjallinu fyrir ofan. Einnig hjá Flögu í Skriðdal eru áþekkar öldóttar skriður, að sögn, enda hefir verið skriðuhætt í dalnum snemma. (Sjá Lnd. bls. 176.) Vafalítið finst mjer, að af skriðuföllum dragi bæirnir nafn. (Dr. Finnur Jónsson segir aðeins þetta um Flögunafn: „Flaga merkir torfu sem skorin hefir verið upp.“ Safn IV. B. bls. 490.) Má telja víst, að jarðspildur, sem sprungið hafa fram úr fjöllum, hafi verið kallaðar flögur eða jarðflögur. En svo hefir orðið „skriða“ fest sig betur í málinu, en „flaga“ gleymst að mestu nema í bæjanöfnunum.

Náskyld merking hefir þó geymst, í (tað)flaga, eiginlega það sem „flett er af“ og í sögn „flagna“. Staður eftir upprifinn jarðveg (jarðflögur eða skriður) kallast flag; sbr. hnausaflag, jarðflag, torfflag o.s.frv. Forna merkingin í flaga, þ. e. jarðspilda, hefir verið víðtækari en nú og leifar hennar finnast t. d. í Fær. flaga, sem táknar moldarflaga (jarðtorfa) og enska orðinu: flaw, þ. e. þunt torflag eða grasfletta, þótt það orð hafi fengið  fleiri merkingar. Á Hjaltlandi þekkist og fla, sem þýðir þunna jarðflögu. Skrítið er það líka, að sumstaðar í Noregi (t. d. í Hallingdal og Sigdal) eru gróðurlausir klettar og hamraveggir kallað flag – og sver það sig í sömu ættina. Sögnin flá (Þ.e. húðfletta – flá skinnið af) er og rótskyld orðunum flag og flaga, og Alf Torp leiðir það at frumrótinni flagð eða flahan

(engils. fléan) og merkir að rífa eða fletta e.ð af e-u. (Torp: 113.)

Rannsóknir og leiðréttingar Margeirs Jónssonar

Áður birst í 6. tbl. Feykis 2019

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir