Vegan núðlusúpa

Vegan núðlusúpa.
Vegan núðlusúpa.

Umsjónarmaður matarþáttar Feykis leitaði í smiðju Eldhússystra í þessum þætti sem birtist í 6. tbl. ársins 2017. 

Matur sem flokkast undir að vera vegan er mjög í tísku um þessar mundir. Reyndar er umsjónarmaður þessa þáttar meira fyrir súrmat en súrkál, ekki síst á þessum árstíma, og hefur ekki ennþá rekist í vegan þorramat. Hins vegar hefur heyrst að smákökur undir vörumerkinu Veganesti séu orðnar ákaflega vinsælar hjá erlendum ferðamönnum, sem misskilja vörumerkið eilítið! Að þessu sinni leitum við enn á ný í smiðju eldhússystranna Rannveigar og Þorbjargar Snorradætra. Gefum þeim orðið:

„Ég elska súpur og ég elska núðlur. Við hjúin erum reglulegir viðskiptavinir hjá Noodle Station og þessi súpa minnir á súpuna þar. Þegar ég datt niðrá þessa súpu varð ég bókstaflega ástfangin af henni. Ég hafði aldrei notað stjörnuanis eða kóríander fræ áður! Þegar ég borða kóríander þá finn ég sápubragð þannig að ég var ekkert súper spennt að setja fræin í súpuna.

Ég er samt vön að fylgja uppskriftum þegar ég er að elda eitthvað í fyrsta skipti og ég sá ekkert eftir því, ekki vottur af sápubragði. Við erum búin að elda hana margoft og hún er alltaf jafn góð. Við eldum alltaf tvöfalda uppskrift.“

Víetnömsk núðlusúpa

fyrir 2

1 stór laukur, tekið utan af honum og helmingaður
5 sm bútur ferskt engifer (flysjað)
1 kanilstöng
1 stjörnu anis
2 heilir negulnaglar
1 tsk kóríander fræ
1 líter grænmetissoð
2 tsk sojasósa
4 gulrætur, flysjaðar og skornar gróft niður
u.þ.b. 250 g hrísgrjónanúðlur

sveppir
muldar salthnetur
sriracha sósa
hakkaður steiktur hvítlaukur
sykur

Aðferð:
Byrjið á því að grilla laukinn og engiferinn, setjið hann á ofnplötu og inní ofn á 200°C og á grillstillingu. Grillið þar til laukurinn og engiferinn er byrjað að brenna aðeins.
Á meðan laukurinn grillast eru kanilstöngin, anisinn, negulnaglarnir og kóríanderfræin sett í pottinn sem súpan verður gerð í og kryddið þurrsteikt á miðlungs hita þar til þau fara að ilma. Passið að hræra til að kryddið brenni ekki við. Þegar kryddið er byrjað að ilma er soðið, sojasósan, gulrótarbitarnir, laukurinn og engiferinn sett í pottinn með kryddinu.
Náið upp suðu og látið malla í 30 mínútur. Á meðan súpan mallar þá eru núðlurnar eldaðar. Setjið nógu mikið af vatni í pott svo það hylji núðlurnar vel rúmlega þegar þær fara út í og náið upp suðu. Slökkvið undir pottinum og setjið núðlurnar út í. Bíðið þar til núðlurnar eru næstum tilbúnar. Þetta tekur 5-7 mínútur og gott er að smakka núðlurnar reglulega. Þær ættu að vera eins og aldente pasta.
Þegar núðlurnar eru tilbúnar eru þær skolaðar með köldu vatni til að þær verði ekki að steypuklessu.
Þegar súpan er tilbúin er hún sigtuð og soðið sett í pottinn aftur. Gulrótar bitarnir eru tíndir úr því sem var sigtað frá og settir í súpuna. Ef nota á sveppi eru þeir skornir niður og settir út í súpuna núna. Leyfið súpunni að sjóða til að sveppirnir eldist aðeins.
Deilið núðlunum á milli tveggja skála og ausið súpu yfir.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir