Áskorandapenninn - Að búa í Reykjavík

Gísli Sigurðsson skrifar:

Í ár markar þau merkilegu tímamót að það eru 20 ár frá því ég flutti frá Sauðárkróki til Reykjavíkur. Finnst eins og það hafi verið í gær að ég var sveittur tölvunörd spenntur að fá að taka þátt í hasarnum og gleðinni sem fylgir því að búa í Reykjavík. Í dag, 20 árum seinna, er ég ekki sveittur tölvunörd heldur miðaldra, þybbinn og sveittur tölvunörd (vildi óska þess að ég hefði farið eftir predikunum hans Árna Stef um mikilvægi hreyfingar þegar ég var í skóla).

Ég man áður en ég flutti suður að margir sem byggju þar töluðu um hvað það gæti verið einmanalegt að búa í Reykjavík. Ungi vitlausi ég fannst það algjör fásinna, taldi ég eftir alla stærðfræðiþekkinguna sem ég var búinn að sanka að mér í Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra að fleira fólk þýddi fleira fólk til að tala og eiga samskipti við.

En eftir að hafa búið hér hálfa ævina þá skil ég þetta fullkomlega. Kannski er þetta leti af minni hálfu að vera ekki duglegri að skreppa í heimsókn til vina og vandamanna en þar sem allir eru eitthvað svo voðalega uppteknir þá er það voðalega erfitt.

Það eru alveg margir kostir og ókostir við að búa í Reykjavík fyrir fjölskyldufólk. En þar sem ég á ekki konu, krakka, hund, grindverk og allan þann pakkann og að flestir hlutir sem ég geri dagsdaglega felast í því að vera fyrir framan tölvuskjá og vera með nettengingu þá er væri líf mitt ekkert mikið meira öðruvísi ef ég myndi flytja aftur norður (nema kannski að ég fæ ekki að upplifa þá gleði að vera fastur í umferð í rúman hálftíma á morgnana og bölva simpansanum sem skipulagði gatnakerfið hérna í sand og ösku).

Fyrir mig er eini kosturinn við að búa hér sá að það er hægt að fara í verslun eftir klukkan 10 á kvöldin. Að hafa þann munað að geta keypt Ritzkex eða þvottaefni um miðja nótt er kannski ekki eitthvað sem er lífsnauðsynlegt, en ég hef lent í þeirri aðstöðu að þurfa að kaupa Chili krydd klukkan 3 um nóttina. Finnst þér það örugglega mjög kjánalegt að þurfa Chili krydd klukkan 3 um nóttina og ég get fullvissað þig um það að afgreiðslumaðurinn sem afgreiddi mig grútsyfjaðan í náttbuxum er þér sammála.

Einnig er meira vöruúrval hér og það er hægt að fara í fleiri sérhæfðari og rándýrari búðir, en eins og allir vita: ,,Ef það fæst ekki í Kaupfélaginu, þá þarftu það ekki”. Þannig að þau rök eru nú bara dauð og ómerk.

Ég hef oft velt því fyrir mér að flytja aftur norður í heimabæinn minn Sauðárkrók, höfuðstað Norðurlands. Ég veit að Akureyri er nú stærri og er talinn höfuðstaður Norðurlands en þar sem Kaupfélagið gæti nú bara tekið sig til og keypt Akureyri og skírt Sauðárkrókur 2, þá segi ég að Sauðárkrókur sé höfuðstaðurinn.

En þar sem ég get ekki fundið neina vinnu tengda forritun, sem er mín ær og kýr, þá þarf ég annað hvort að bíða eftir því að hugbúnaðarhús á Króknum sé að leita að kóðaöpum eins og mér eða hreinlega koma með mitt fyrirtæki í mína heimabyggð.

Áður en það gerist, þá þarf ég bara að vera duglegri að kíkja á allt frábæra fólkið sem býr a Sauðárkróki og enda dvöl mína á einni djúpri eða tveimur á Bláfelli.

Ég skora á Jón Marz Eiríksson

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir