Að flytja heim... Áskorandapenni :: Sunna Björk Björnsdóttir Sauðárkróki

Við fjölskyldan fluttum norður, heim, úr sollinum fyrir sunnan,  veturinn 2017-2018. Reyndar flutti einn fjölskyldumeðlimur í einu yfir töluvert langt tímabil en þrátt fyrir það höfum aðlagast ljómandi vel, að okkur finnst. Að búa í Skagafirði, gefur svo ótrúlega margt.

Nálægðin við náttúruna, sveitina, fólkið okkar og svo mætti lengi telja. Reiðtúrarnir sem byrja og enda í garðinum heima, sundferðirnar, fjöruferðirnar, skíðaferðirnar óteljandi í Tindastól og allt annað sem við höfum bardúsað. Það að geta lagt af stað úr vinnu kl. 16 og sótt börnin sín og vera komin heim stuttu síðar eru mikil forréttindi. Síðustu árin hef ég átt margar seinni parts mínúturnar á Hringbraut á leið heim af Landspítala með hnút í maganum um að koma enn og aftur allt of sein á leikskólann. Enn fleiri mínútum hef ég þó varið inni á bílastæði sömu stofnunar í leit að stæði, eða já bara að komast út af stæðinu. Já, smæðin er bara betri, langoftast betri.

Sem sérnámslæknir í heimilislækningum flutti ég fyrirlestur um héraðslækningar, fyrir sérnámshópinn í Reykjavík. Jú, auðvitað af skyldu, en einnig því þetta fag skiptir mig svo miklu máli, á svo vel við mig. Það að vinna í „héraði“ er töluvert fjölbreyttara starf en á höfuðborgarsvæðinu. Einnig allt öðruvísi starf. Að vinna og búa í minna samfélagi þar sem allir þekkja alla hefur bæði sína kosti og galla. Læknirinn er hluti af samfélaginu og tekur þátt í því sem einstaklingur. Hann hittir einnig í sínu starfi fjölskyldumeðlimi, vini, nágranna, gamla skólafélaga og kennara í almennri móttöku eða á vakt, þar sem hafa orðið slys eða veikindi. Þetta er sérstakt en skemmtilegt og gefandi.

Við læknar lendum oft á milli tannanna á fólki, sem kannski er hluti af starfinu. Það gerist með tímanum að það myndast skrápur. Að vera óbreyttur unglæknir á spítalanum sem sinnir sinni vinnu í einkennisklæðnaði hlaupandi á íþróttaskóm er töluvert öðruvísi en að vera heimilislæknir í eigin persónu í minna samfélagi. Með tilkomu samfélagsmiðla skrifar fólk sínar hugleiðingar og sendir þær svo út í cosmosið með að ýta á bláan hnapp, oft óritskoðað. Það kemur nú fyrir að skrifað sé um okkur lækna, stundum nafngreint en oftast ekki, orð sem ekki eru sönn eða byggð á einhverju sem á sér litla stoð í raunveruleikanum. Oft er það vegna þess að fólk er ósátt með vinnu okkar þó hún hafi verið unnin skv. klínískum leiðbeiningum og rannsóknum. Erfiðast er að geta ekki svarað fyrir sig og leiðinlegt að þurfa sem einstaklingur að mynda sér skráp og tileinka sér jafnaðargeð til að stunda sitt ævistarf. Ég ætla að enda þennan pistil á orðum sem vinkona mín af heilsugæslunni skrifaði í komment undir Facebookfærslu, ætli það hafi ekki bara verið sl. sumar: Aðgát skal höfð í nærveru sálar.

Ég skora á Helgu Elísu Þorkelsdóttur sem næsta pistlahöfund.

Áður birst í 5. tbl. Feykis 2020

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir