Að rækta garðinn sinn - Áskorendapenninn Þyrey Hlífarsdóttir

Þegar ég fékk áskorun frá samstarfskonu minni og vinkonu Sigrúnu Ben, fór ég að velta því fyrir mér hvað það er sem skiptir mig mestu máli. Þá komu fjölskylda og vinir fyrst upp í hugann. Fyrir mér er ómetanlegt að eiga í góðum samskiptum við fjölskylduna mína og vini og vita að ég get leitað til þeirra með hvað sem er, hvenær sem er.

Lífið er alls konar og á það stundum til að skella full harkalega á okkur þegar við eigum síst von á því. Á slíkum stundum er gott að eiga fólkið sitt að og sækja sér styrk og hlýju til þeirra sem maður treystir og líður vel í kringum. Ég er svo lánsöm að eiga í mínum „garði“ fjölbreytta flóru af  fjölskyldu og vinum sem ég get leitað til við hvaða tilefni sem er, já og líka algerlega af tilefnislausu. Á móti reyni ég að gera mitt besta til að vera til staðar fyrir fólkið mitt þegar á þarf að halda eða þegar einhver fær góða hugmynd um að gera eitthvað sniðugt og skemmtilegt.

Góð fjölskyldu- og vinasamskipti eru ekki sjálfgefin og eins og með allt sem á að dafna vel þarf að huga að, leggja rækt við og sinna því af alúð til að styrkja og rækta traustið og vináttuna. Njótum þess að elska og að vera elskuð og nýtum allar stundir sem við getum til að vera með þeim sem okkur þykir vænt um og líður vel með.

Í nútíma samfélagi með öllum þeim hraða og lífsgæðakapphlaupi sem því fylgir finnst mér þessi mikilvægi þáttur stundum gleymast eða vera ýtt til hliðar. Oft gefum við okkur ekki tíma til að kíkja í kaffi, heimsækja ættingja og vini, fara í saumaklúbb, fara út að leika með börnunum okkar eða í göngutúr með makanum, við bara megum ekki vera að því vegna þess að það er svo mikið að gera. En þarf þetta endilega að vera svona og hvað er það eiginlega sem við erum svona upptekin við?

Fyrir mér eru góð fjölskyldu- og vináttutengsl lífsgæði sem ég get ekki hugsað mér að vera án, en ég veit líka að til þess að ég geti átt þessi góðu fjölskyldu- og vináttutengsl þarf ég að leggja mitt af mörkum við að rækta sambandið við fólkið mitt og hugsa vel um „garðinn“ minn. Ég hef því tekið meðvitaða ákvörðun um að sinna þessum þætti betur en ég hef gert undanfarið og hætta að ýta því til hliðar sem skiptir mig mestu máli. Svo verið þið viðbúin það er aldrei að vita nema ég kíki í kaffi fyrirvaralaust einn daginn.

Ég skora á frænku mína Bríeti Guðmundsdóttur til að taka við pennanum og vera svo viðbúin því að ég birtist í kaffi til hennar fljótlega.
Góðar stundir.

Áður birst í 43. tbl. Feykis 2018

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir