Að vera foreldri - Áskorandi Luís Augusto F. B. de Aquino á Hvammstanga

Skilgreiningar á fólki hafa alltaf vakið áhuga minn. Þegar ég var að alast upp, fannst mér mjög erfitt að skilja hvers vegna. Einhverra hluta vegna finna menn oft hjá sér þörf til að sýnast vera eitthvað, eða einhver, sem þeir ekki eru, oft með ófyrirséðum afleiðingum. Og að tala ekki um hlutina varpar skugga á það sem við hefðum átt að vera upplýst um fyrir löngu.

Mér gekk vel að lifa mig inn í hasarmyndir og samsama mig hetjum þeirra, íþróttir, íþróttamönnum, bardagalistir og bardagaköppum (hér er þunn lína sem skilur að ofbeldi), kappakstur („allir menn elska bíla“) og hryllingsmyndum („hvað? Ertu hræddur??“).

Sem karlmaður var ég hvattur til að leggja mig fram í íþróttum almennt, en sem ungur, svartur, brasilískur maður, var ég fráhverfur „kvenlegum atriðum“ eins og blaki, dansi, að elda eða hvernig klæðnaður fari manni best („það er gay“). Ég gat ekki tjáð mig um tilfinningar („það er merki um veikleika og jafnvel gay“); Ég mátti ekki vera of greindur („nördalegt“); en ég gat ekki ströglað í skólanum heldur („svart fólk er svo latt“). Að auki, að leita sér hjálpar eða fá ráðleggingar er algerlega út í hött. Ég meina, „hver gerir svoleiðis?!“

Á táningsárunum getur það reynst erfitt að finna sér stað í samfélaginu og ákveða hver maður vill vera. Ég afneitaði því sem ég var í raun og útilokaði ýmsa hluti, allt þar til ég fann það út, með mikilli hjálp auðvitað. Ég er enn að læra að elda, dansa, klæða mig smekklega, sýna ástúð og umhyggju öllum þeim sem á þurfa að halda, æfi brasilískt Jiu Jitsu - ég elska íþróttina - en ég er ennþá mjög mótfallinn ofbeldi, hata enn hryllingsmyndir og ég horfi á blak, og aðrar íþróttir, í sjónvarpinu þegar tækifæri gefast. Hvernig sem á allt er litið nú þá er ég klár á því hver ég er. En hugsaðu þér ef ég væri það ekki…

Í dag er ég faðir tveggja yndislegra drengja (4 og 2 ára), og samfélagsábyrgð mín hefur aukist á veldishraða. Ég reyni að vera þeim fyrirmynd um það hvað þeir geta orðið eða tekið sér fyrir hendur í lífinu. Ef einhver biður mig um ráð við barnauppeldi, svara ég alltaf eins: „Gerðu þitt besta til að drepa ekki barnið þitt.“ Og þá meina ég - hann eða hún munu standa sig vel en einnig eiga þau efalaust eftir að glíma við mótlæti. Hann, eða hún, mun án vafa gera eða verða eitthvað sem við teljum þeim ekki fyrir bestu. En ég er á því að okkar starf sem foreldrar sé að leiðbeina þeim til að verða besta útgáfan af sjálfum sér, hvort sem það er að verða heimavinnandi pabbi eða forseti landsins.

Ég skora á Sigurbjörgu Emily Sigurðardóttir að koma með pistil.

Áður birst í 15. tbl. Feykis 2019.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir