Áfram Bjarni Jónsson!
Kæru Skagfirðingar ! Við eigum ötulan baráttumann. Ég hef kynnst vel störfum Bjarna Jónssonar í sveitarstjórn Skagafjarðar. Bjarni er einstaklega ósérhlífinn og kappsamur með mikla yfirsýn í sveitarstjórnarmálum. Sérstaklega hefur okkur hér Austan vatna þótt gott að eiga hann að.
Á framboðsfundinum hér á Hofsósi á miðvikudagskvöldið kom það svo skýrt fram hver hefur verið okkar besti talsmaður í sveitarstjórn undanfarin ár og hverjum við getum best treyst áfram.
Mér hefur fundist gott að heyra rödd Bjarna hvort sem er hér heima eða í fjölmiðlum þar sem hann talar af þekkingu og festu fyrir hagsmunum okkar Skagfirðinga og landsbyggðarinnar allrar. Ekki veit ég hvar Heilbrigðisstofnunin okkar væri ef einarðar baráttu Bjarna hefði ekki notið við. Sem formaður skólanefndar FNV hefur hefur hann ásamt stjórnendum skólans átt sinn þátt í að styrkja skólann í sessi og varða leiðina inn í framtíðina með þróun nýrra námsleiða.Þannig hefur það verið í fleiri málum.
Bjarni hefur staðið fremstur í flokki til varnar Heilbrigðisstofnuninni og á stóran þátt í að hún hefur ekki orðið fyrir enn meiri niðurskurði. Hann stóð í að stöðva áform fyrrverandi ríkisstjórna um að leggja Heilbrigðisstofnunina niður sem sjálfstæða stofnun og flytja til Akureyrar.
Bjarni gaf hvergi eftir sama hver ráðherrann var. Hugmyndinni var ýtt út af borðinu.
Nú hefur aftur verið boðað af núverandi ríkisstjórn að leggja eigi stofnunina niður. Við þurfum að geta treyst því að þeir sem sitja fyrir okkur í sveitarstjórn bogni ekki fyrir slíkum hótunum eða drjúpi höfði fyrir samflokksmönnum sínum sem fyrir því standa.
Tilkynningin um sumarlokun Endurhæfingarsundlaugarinnar var okkur alvarleg áminning. Gott er að vita af Bjarna á vaktinni þar.
Bjarni hefur auk þess að vera forseti sveitarstjórnar Skagafjarðar verið formaður landshlutasamtakana á Norðurlandi vestra, SSNV þar sem hann hefur notið víðtæks trausts í störfum sínum fyrir svæðið. Hann hefur verið þar einn ötulasti talsmaður og baráttumaður fyrir hagsmunum Skagfirðinga sem og fyrir landshlutann í heild undanfarin ár.
Skagfirðingar! Við þurfum traust fólk til forystu. Tryggjum Bjarna Jónssyni góða kosningu á laugardaginn. Merkjum X við V. xV
Einar Þorvaldsson
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.