Áhrifavaldur eða örlagavaldur? - Áskorandi Jónína Hrönn Símonardóttir Brottfluttur Skagfirðingur

Ég tók þeirri áskorun frá henni Heiðu systur að munda pennann, eða í þessu tilfelli, pikka á lyklaborðið. Að vera brottfluttur Skagfirðingur er ákveðinn „status“.  Ég bjó í Skagafirðinum í 21 ár; lengst af í Ketu í Hegranesi, þar sem foreldrar mínir búa enn. Ég er elst fjögurra systkina og hjálpaði til við öll helstu sveitastörfin frá því ég fór að geta gert gagn. 

Þegar ég fór að heiman vantaði mig vinnu, fyrst með skólanum og síðan fulla vinnu. Þá  var ég svo einstaklega heppin að fá vinnu í Versluninni Tindastól við Hólaveginn sem átti sinn þátt í að móta mig og gera mig að þeirri konu sem ég er í dag. Að kynnast því frábæra fólki sem þar var í vinnu og öllum þeim einstaklingum sem komu og versluðu við kaupmanninn á horninu var ómetanlegt. Þegar ég hugsa um þennan tíma sem varði alveg frá árunum 1986 til 1990, get ég ekki varist brosi. Það var yfirleitt alltaf gaman í vinnunni, Erling og Sigrún algjörlega frábærir yfirmenn og þau treystu manni einhvern veginn alltaf og sýndu það bæði í orðum og verki. Silló heitin var einnig liðtæk þegar maður þurfti einhverja aðstoð og hún þreyttist aldrei á að aðstoða og hvetja.

Það má segja að Erling heitinn hafi svo verið stór áhrifavaldur í mínu lífi þegar ég ákvað að flytja í burtu frá Króknum og kanna ókunnar slóðir, eða kannski mætti frekar kalla hann örlagavald. Eftir stúdentspróf vissi ég ekkert hvað ég vildi verða þegar ég yrði stór og langaði að gera eitthvað allt annað en ég hafði verið að gera, kynnast nýju fólki og fara úr þeim aðstæðum sem ég var í. Þetta var sumarið/vorið 1990 og ég með ársgamalt stúdentspróf upp á vasann, sem gerði mér kleift að sækja um eina af þeim óteljandi stöðum leiðbeinanda í grunnskóla sem fylltu allar atvinnuauglýsingar í Mogganum. 

Ég sá það í hyllingum að prófa að kenna í grunnskóla (en vildi alls ekki kenna í Skagafirðinum). Ég var því eitthvað að bera mig upp við Erling einhvern tímann í vinnunni og sagði honum að ég vissi ekkert hvar ég ætti að sækja um, það eina sem ég væri búin að ákveða væri að sækja um einhvers staðar......þá sagði hann (og ég sé hann alveg fyrir mér þegar hann sagði): „Viltu ekki bara sækja um á Þingeyri?, það er svo ansi hreint góður harðfiskurinn sem við kaupum af honum Nonna“  (sem var harðfiskverkandi á Þingeyri, sem við seldum harðfisk frá).

Ég tók hann á orðinu, sótti um  við Grunnskólann á Þingeyri, fékk stöðuna og fór vestur um haustið að kenna 5. bekk fyrir hádegi og 3. bekk eftir hádegi. Þarna fann ég mína hillu og minn stað; því ég hef búið á Þingeyri nánast alveg síðan. Ég fór í fjarnám við Kennaraháskóla Íslands til að ná mér í réttindi, því þetta starf höfðaði til mín...þarna var mín hilla.

Nú, 29 árum og nokkrum háskólagráðum síðar, bý ég enn á Þingeyri með eiginmanninum sem er Dýrfirðingur í húð og hár, kenni enn við Grunnskólann á Þingeyri og hef alið upp 3 börn hér, Dýrfirðinga,  sem öll eru flogin úr hreiðrinu og er m.a.s. orðin tveggja barna amma. Á þessum tæplega 30 árum hef ég einnig verið áhrifavaldur í lífi nokkurra ungmenna alveg eins og Erling var í mínu lífi. Fyrir það er ég endalaust þakklát. En það er magnað að vera „Skagfirskur Dýrfirðingur“...... það verð ég þá daga sem ég á eftir ólifaða.

Virðingarfyllst, Jónína Hrönn Símonardóttir (Ninna).

Ég skora á bekkjarsystur mína úr Gagganum á Krók, Evu Hjörtínu Ólafsdóttur að rita næsta pistil.

Áður birst í 8. tbl. Feykis 2019.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir