Beggja vegna

Ég vil byrja á því að þakka henni Lillu minni fyrir að skora á mig þótt það sé nú ekki auðvelt að feta í hennar fótspor. Eftir að hafa velt fyrir mér hvað ég hefði mögulega að segja benti systir mín mér á að ég gæti skrifað um Drangey en sú perla (eyjan og systirin) er mér mjög kær. Þar að auki finnst mér áhugavert að skoða hvernig mannskepnan tekst á við breytingar og hvernig við lögum okkur að nýjum aðstæðum.

Árið 1982 flutti ég á Krókinn. Það var kúvending í lífi tíu ára stelpu en mikil tilhlökkun að búa svo nálægt ömmu og afa. Þegar dvölin var orðin lengri en venjuleg heimsókn á Krókinn fór ég að sakna allra og alls og fann Sauðárkróki allt til foráttu. Ég var vön söltu sundlaugarvatni og fékk ítrekað í nefið í þessari hræðilegu sundlaug og veggirnir í kirkjunni voru eitthvað svo ræfilslegir. Til að toppa þetta var hvorki hægt að æfa fimleika né handbolta á Króknum. Ég tilkynnti að um leið og ég yrði sjálfráða myndi ég flytja aftur til Vestmannaeyja.

Fljótlega var ég þó búin að skjóta rótum og gat ekki gert upp á milli Tindastóls og Heimakletts (eða Tindastóls og ÍBV). Mér þykir vænt um sundlaugina og fæ ekki lengur í nefið. Mér líður alltaf vel í Sauðárkrókskirkju og finnst hún undurfögur og veggir hennar fullboðlegir. Þar að auki fór líf mitt skyndilega að snúast um fótbolta.

Ég fæddist og varði frumbernsku minni á eyju og það er kannski ástæða þess að Drangey er það sem stendur upp úr þegar ég hugsa norður. Það er fátt fallegra en sólarlag í Skagafirði og eyjan hefur eitthvert magnað aðdráttarafl og það er eins og það stafi frá henni kraftur. Stundum förum við fjölskyldan lengri leiðina norður bara til að geta séð fjörðinn fegursta birtast fyrir framan okkur.

En aftur að breytingum. Árið 2002 keyptum við hjónin Skefilsstaði á Skaga og þá blasti við mér allt önnur Drangey. Lengi fannst mér þetta hálf aumt útsýni frá því sem ég vandist frá Króknum en í dag get ég setið tímunum saman og teygað kraftinn úr eynni frá þessu nýja sjónarhorni sem mér þykir nú alls ekki síðra en hitt.

Breytingar hafa orðið nokkuð tíðar í mínu lífi eins og gengur og gerist og ég þurft að venjast nýju hlutskipti, stöðum og venjum. Það sem ég hef lært er að stundum þarf að sjá hlutina frá nýju sjónarhorni til að læra að meta fegurðina í lífinu og njóta þess sem býðst hverju sinni. Og þótt ég telji mér vera nokkuð sjálfrátt er ég líklega ekki enn orðin sjálfráða.

Anna Pála Gísladóttir

Ég ætla að skora á mágkonu mína Kolbrúnu Dögg Sigurðardóttur að taka við pennanum.

 Pistillinn birtist í 27. tölublaði Feykis 2021

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir