Dagur íslenskrar tungu 16. nóvember

Jónas Hallgrímsson unni landi, þjóð og tungu. Hann helgaði sig þjónustu við þetta þrennt og gaf þjóð sinni að njóta. Íslensk þjóð á Jónasi því ærið margt að þakka. Það koma ekki margir slíkir snillingar fram á hverri öld. Segja má að Jónas hafi átt ótrúlegu láni að fagna í lífinu þrátt fyrir sára fátækt alla tíð. Hann lifði á tímum mikilla breytinga og framfara þar sem sýn manna á heiminn tók miklum breytingum. Ef til vill á tíma í líkingu við tímana sem menn upplifa núna þegar þeir ganga inn í þriðja áratuginn á nýrri öld inn í framtíð sem enn er óráðin en boðar miklar breytingar. Þetta er tími nú eins og þá sem kallar á árvekni manna í breyttum heimi og hugmyndaauðgi.

Fátæka sveitadrengnum úr Eyjafirði lánaðist að njóta menntunar í æðstu menntastofnunum Íslands og Danmerkur og þar fengu hæfileikar hans og gáfur að njóta sín og blómstra. Afrakstur þess er ein rót íslenskrar menningar sem teygir sig inn í veröld vísinda og bókmennta. Gjafir Jónasar til Íslendinga og íslenskrar menningar og vísinda eru óþrjótandi því enn gefur hann af óþrjótandi auðlind sinni. 

Jónas Hallgrímsson var stjarna síns tíma, geymd næturskýjum í hundrað ár þar til hulunni var svipt af henni. Einmana stjarna sem lýst hefur upp himinn Íslands og lýsir nú skærar en nokkru sinni. Hverjar eru gjafir Jónasar? Dagur íslenskrar tungu, 16. nóvember, er helgaður honum og íslenskri tungu. Í 13 ár hefur íslenski fáninn fengið að blakta við hún á þessum degi honum til heiðurs. Það er gjöf fyrir þjóð að fá að heiðra land og tungu einu sinni á ári með þessum hætti. Sífellt eru menn að heiðra Jónas með því að endurskapa sögu hans listrænum gjörningum og þannig bæði gefur hann og þiggur.  Stærsta gjöfin er hugsanlega sú að hann auðgar anda Íslendinga á öllum skólastigum og er þannig áminning til landans um að halda vöku sinni og nýta menntun sína landi og þjóð til heilla og framfara. 

Menntun á Íslandi og reyndar annars staðar í heiminum er á krossgötum 2020 eða í miðju umbreytingarferli breyttrar heimsmyndar. Alveg á sama hátt og Jónas fyrir tæpum 200 árum síðan en munurinn er aðeins sá að breytingar nútímans ganga hraðar yfir en á 19. öldinni. Heimurinn eins og  hann er í dag mun horfinn 2032. Ekki er hægt að hindra breytingar, það hefur sagan sýnt. En til þess að allir standi jöfnum fæti í breyttum heimi þarf öflugt menntakerfi með gífurlegri áherslu á læsi. Læsi er undirstaða framfara og það skildi Jónas Hallgrímsson sem vildi mennta þjóð sína þannig að allir ættu kost á skólagöngu. Það tók meira en 100 ár að koma þeim hugmyndum hans í framkvæmd á Íslandi. 

Heimurinn er á hraðri leið inn í framtíð sem enn er óráðin. Á Degi íslenskrar tungu 2020 er vert að velta fyrir sér orðum skáldsins: Höfum við gengið til góðs, götuna fram eftir veg...?  Velta má fyrir sér hvort skrefin séu fleiri aftur á bak eins og skáldið spyr um í ljóði sínu þrátt fyrir öflugt menntakerfi. Í alþjóðaumhverfi 21. aldarinnar er mikilvægara en nokkru sinni að hlúa að íslenskri tungu. Það gerði Jónas Hallgrímsson svo eftirminnilega og varðaði þannig veginn inn í næstu öld. Skólaganga hans var ekki sjálfgefin og því hefur hann vitað í brjósti sér að það að fá að mennta sig til góðra verka er mesta verðmæti hverrar þjóðar. Íslensk tunga sem lifað hefur margar hættur er nú í meiri hættu en nokkru sinni fyrr. Því er mikilvægt á Degi íslenskrar tungu 2020 að minna á að gæta tungu sinnar og hlúa að tungumálinu sem okkur er gefið.

Þorgerður Ásdís Jóhannsdóttir, íslenskukennari

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir