Ég mun ná þessum 100 leikjum! – Liðið mitt … Brynhildur Ósk Ólafsdóttir - Manchester United

Brynhildur Ósk Ólafsdóttir á Sauðárkróki gerði garðinn frægan með meistaraflokki Tindastóls á árum áður í fótboltanum. Hennar fyrsti skráði meistaraflokksleikur var á móti Sindra í B riðli 1. deildar kvenna í maí 2008 en þá var Brynhildur 15 ára gömul en síðasti leikurinn var  níu árum síðar gegn ÍA í maí 2017. Alls lék hún 97 meistaraflokksleiki og skoraði fimm mörk. Brynhildur svara spurningum í Liðinu mínu þessa vikuna.

Hvert er uppáhalds liðið þitt í enska boltanum og af hverju? -Uppáhalds liðið mitt í enska boltanum er auðvitað Manchester United. Pabbi á klárlega heiðurinn af Manchester uppeldinu á mér.

Hvernig spáir þú gengi liðsins á tímabilinu? -Ég held ég spái þeim sjötta sætinu svona miðað við hvernig þetta fer af stað hjá þeim en ég hef trú á að þeir rífi sig í gang þegar líður á.

Ertu sátt við stöðu liðsins í dag? -Nei ég get ekki því miður ekki sagt það, þeir eru búnir að vera heldur slappir það sem af er móti.

Hefur þú einhvern tímann lent í deilum vegna aðdáunar þinnar á umræddu liði? -Já oft og mörgum sinnum, það fylgir þessu sporti. Poolararnir eru margir hverjir erfiðir þegar kemur að deilum milli liðanna en annars er bróðir minn Arsenal maður og í gegnum tíðina hafa komið upp deilur milli okkar eftir leiki en aldrei neitt alvarlegt.

Hver er uppáhaldsleikmaðurinn fyrr og síðar? – Alveg klárlega David Beckham, hann hefur verið uppáhaldið mitt frá byrjun og er enn þó svo að hann sé hættur.

Hefur þú farið á leik með liðinu þínu? – Já ég fór á Old Trafford 2015 á leik Manchester United og WBA sem endaði með 2-0 sigri minna manna. Ég stefni á að fara á fleiri leiki í framtíðinni.

 Áttu einhvern hlut sem tengist liðinu? –Já ég á fullt af dóti, t.d. treyjur, bolla og Man. Utd. boxhanska sem ég er með í bílnum mínum svo eitthvað sé nefnt.

Hvernig gengur að ala aðra fjölskyldumeðlimi upp í stuðningi við liðið? – Pabbi er grjótharður United maður en Mamma er Arsenal og við pabbi reyndum nú að ala bróðir minn upp sem United mann en það gekk ekki. Þar hafði mamma betur.

Hefur þú einhvern tímann skipt um uppáhalds félag? -Ekki beint skipt um félag, hef alltaf haldið með Manchester united en þegar Beckham fór í Real Madrid þá hélt ég líka með þeim.

 Uppáhalds málsháttur? -Ég held ég eigi nú engan uppáhalds en málshátturinn „Aldrei er góð vísa of oft kveðin“ er góður.

Einhver góð saga úr boltanum? – Þær eru nú svo margar! Mér dettur svona helst í hug mjög eftirminnileg ferð sem við fórum til Svíþjóðar í 3. flokki á Gothia cup og svo ferðin sem mfl. kvenna fór vestur á Flateyri í sannkallaða ævintýraferð.

Einhver góður hrekkur sem þú hefur framkvæmt eða orðið fyrir? –Ég man ekki eftir neinu eins og er, en þeir hafa eflaust verið nokkrir í gegnum tíðina.

Spurning frá Snæbjörtu Pálsdóttur.
Hvenær á að reima aftur á sig takkaskóna og spila þessa þrjá leiki fyrir Tindastól sem þú átt eftir til að ná 100 leikjum fyrir félagið ?
Ég mun ná þessum 100 leikjum! Aldrei að vita nema það verði næsta sumar.

Hvern myndir þú vilja sjá svara þessum spurningum? -Væri til í að sjá bróðir minn, Jónas Aron svara þessu.

Hvaða spurningu viltu lauma að viðkomandi? – Heimskulegasta spjald sem þú hefur fengið?

Áður birst í 40. tbl. Feykis 2019.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir