Eiga eftir að slefa inn í meistaradeild - Liðið mitt Baldur Þór Ragnarsson

Baldur þjálfari meistaraflokks Tindastóls heldur með Liverpool í enska boltanum vegna þrýstings frá fjölskyldunni. Aðsend mynd.
Baldur þjálfari meistaraflokks Tindastóls heldur með Liverpool í enska boltanum vegna þrýstings frá fjölskyldunni. Aðsend mynd.

Baldur Þór Ragnarsson hefur staðið í ströngu í vetur sem þjálfari Domino´s liðs Tindastóls í körfubolta en leiktíðin hefur verið ansi snúin á marga vegu. Covid hefur sett nokkur strik í reikninginn og gengi liðsins að margra mati ekki nógu gott. Komst liðið þó í úrslitakeppnina og fékk þann andstæðing sem enginn vildi mæta í fyrstu rimmu þeirrar keppni, deildarmeisturum Keflavíkur. Þrátt fyrir góða baráttu Stólanna náðu þeir ekki að vinna leik og eru því komnir í sumarfrí en vissulega var möguleikinn alltaf fyrir hendi. Skorað var á Baldur að svara spurningum í Liðinu mínu og lét hann til leiðast þrátt fyrir annasama daga undanfarið.

Hvert er uppáhalds liðið þitt í enska boltanum og af hverju?
-Liverpool, vegna þess að allir í fjölskyldunni minni halda með Liverpool, reyndi að halda með Manchester Utd, en var stoppaður af, því miður þegar ég var fjögurra ára gamall. Þá hefði ég upplifað fleiri titla á minni ævi.

Hvernig spáir þú gengi liðsins á tímabilinu?
-Þetta er ströggl, menn eiga eftir að slefa inn í meistaradeild.

Ertu sáttur við stöðu liðsins í dag?
-Jáá, liðið var meistari í fyrsta skipti á minni ævi á síðasta tímabili svo ég reikna með að allir Poolarar séu ennþá sáttir með að upplifa þennan titil. Auðvitað hefði maður vilja sjá þá fylgja eftir góðum árangri á síðasta tímabili og ná tveimur í röð en það kemur tímabil eftir þetta tímabil.

Hefur þú einhvern tímann lent í deilum vegna aðdáunar þinnar á umræddu liði?
-Neei, ekki svona í seinni tíð.

Hver er uppáhaldsleikmaðurinn fyrr og síðar?
-Mohamed Salah

Hefur þú farið á leik með liðinu þínu?
-Nei, ekki ennþá.

Áttu einhvern hlut sem tengist liðinu?
-Nei.

Hvernig gengur að ala aðra fjölskyldumeðlimi upp í stuðningi við liðið?
-Pass.

Hefur þú einhvern tímann skipt um uppáhalds félag?
-Reyndi að halda með Manchester utd. þegar ég var yngri en fjölskyldan var snögg að snúa mér.

Uppáhalds málsháttur?
-Win or learn.

Einhver góð saga úr boltanum?
-Spilaði fótbolta eitt sumarið með Ægi á milli körfuboltatímabila, var ekkert voðalega vinsælt og talað um að ég ætti að sleppa þessu vegna meiðslahættu. Kom inn á í einum leik, var tæklaður illa og fékk beinmar í ökkla. Þar kláraðist minn fótboltaferill og þeir sem höfðu hvað hæst um meiðslahættuna höfðu kannski rétt fyrir sér.

Einhver góður hrekkur sem þú hefur framkvæmt eða orðið fyrir?
-Nei, ekki svo ég muni.

Spurning frá Helenu sjúkraþjálfara:
-Hvaða sigur Tindastóls, undir þinni stjórn, er sá sætasti og af hverju?

Svar:
-Það myndi vera sigurinn á KR í KR-heimilinu í fyrri umferðinni á fyrsta tímabilinu með Tindastól. Þá fann maður mikla samstöðu og einnig spilaði liðið góðan leik og sýndi að það væri til alls líklegt.

Hvern myndir þú vilja sjá svara þessum spurningum næsta haust þegar tímabilið er farið af stað á ný?
-Halldóru Andrésdóttur.

Hvaða spurningu viltu lauma að viðkomandi?
-Hver var skemmtilegasta keppnisferðin og af hverju?

Áður birst í 21. tbl. Feykis 2021

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir