Frostið fór í 18,9°C á Sauðárkróksflugvelli
Frostið er um -12°C á Sauðárkróksflugvelli nú um klukkan níu en á Hrauni á Skaga og við Stafá í Sléttuhlíð er frostið á sama tíma áætlað -3°C. Í Húnavatnssýslum er frostið um -8°C. Það dregur úr kuldanum þegar líður á daginn og nálgast frostmark um miðnætti. Áfram verður þó kalt næstu daga og kuldaboli gefur engin grið um helgina en þá er spáð yfir tíu stiga frosti víðast hvar – nema reyndar á Hrauni á Skaga sem virðist ætla að verða í öðru veðurkerfi en aðrir staðir á Norðurlandi vestra og hitamælirinn dirfist varla að fara neitt að ráði niður fyrir frostmarkið.
Spáð er stilltu veðri fram yfir helgi og vindur nánast frosinn undir 5 m/sek.
Allir vegir á Norðurlandi vestra eru færir ef undan eru skildir vegirnir yfir Lágheiði og Siglufjarðarskarð. Vegfarendur mega þó reikna með hálku eða hálkublettum á öllum öðrum vegum – nema hvað Skagastrandarvegur er greiðfær.

Veðrið um hádegi í dag samkvæmt Veðurstofunni.
