Húnahornið stendur fyrir vali á Manni ársins í Austur-Húnavatnssýslu
Kosning á Manni ársins á Norðurlandi vestra stendur nú yfir á Feykir.is en Húnahornið stendur sömuleiðis fyrir vali á Manni ársins en í Austur-Húnavatnssýslu en það hefur netmiðilinn gert undanfarin 20 ár. Eru lesendur Húnahornsins hvattir til að senda inn tilnefningu í gegnum þar til gerðan rafrænan atkvæðaseðil. Hver og einn getur sent inn eina tilnefningu og er jafnframt óskað eftir ástæðu tilnefningarinnar. Maður ársins í Austur-Húnavatnssýslu getur verið einstaklingur eða hópur manna.
Allir lesendur Húnahornsins eru hvattir til að taka þátt í valinu - Smelltu hér.
„Lesendur Húnahornsins völdu Jóhönnu Erlu Pálmadóttur á Akri sem mann ársins í Austur-Húnavatnssýslu árið 2024. Jóhanna er textílkennari og verkefnastjóri hjá Textílmiðstöð Íslands á Blönduósi og frumkvöðull að tilurð Vatnsdælurefilsins og Prjónagleðinnar svo fátt eitt sé nefnt. Þá má geta þess að Jóhanna hlaut árið 2019 riddarakross Hinnar íslensku fálkaorðu fyrir störf í þágu safna og menningar í heimabyggð.
Þetta er í 21. sinn sem Húnahornið stendur fyrir vali á manni ársins í Austur-Húnavatnssýslu. Valið stendur til miðnættis 20. janúar næstkomandi og verða úrslit kynnt laugardaginn 24. janúar 2026.
