Ein með öllu – nú eða einn... | Leiðari 20. tölublaðs Feykis

Það er ekkert víst að allir séu sammála en flestir taka sennilega undir að Guðni Jóhannesson forseti hefur verið forseti fólksins. Vingjarnlegur, grínaktugur og sanngjarn, hreinn og beinn, staðið við bakið á landsmönnum í blíðu og stríðu og virtist nær alltaf til í spjall. Já og eldklár.

Sumir biðu kannski eftir meiri tilþrifum, að forsetinn berði í borðið og segði: Hingað og ekki lengra! En það voru kannski ekki mörg mál af þeim toga sem bar upp á tímabili Guðna á valdastóli. Tíma sem kannski endurspeglast af MeToo-byltingu, náttúruhamförum hér heima fyrir, ófriði í Úkraínu og Palestínu og heimsfaraldri. Ekki á það bætandi að rugga bátum í stormi. Guðni var duglegur að sækja körfuboltaleiki en færði liði Tindastóls ekki mikla gæfu með sínum heimsóknum. Mikið var þó gaman að fá hann heim í Síkið.

Elíza, eiginkona forsetans, var líka skemmtilega áberandi í málum sem skiptu máli. Með eigin skoðanir og bein í nefinu.

Undirritaður naut ekki þess heiðurs að fá að taka í hönd forsetans á meðan á valdatíð hans stóð en forsetafrúin kastaði kveðju á okkur feðga á Orkustöðinni á Hvammstanga þar sem við sátum og biðum eftir samlokum af grillinu. Elíza var þá að vísitera Húnaþing vestra í félagi við Gunna okkar Rögg, nýkomin af Byggðasafni Húnvetninga og Strandamanna.

Guðni forseti er búinn að heilsa ófáum Íslendingum síðustu átta árin. Sem fyrr segir þá á hann eftir að heilsa mér en ég hefði mögulega getað gert eitthvað í málunum í fyrrasumar. Við feðgar höfðum þá farið smá lúbbing, einn rúnt vestur yfir Þverárfjallið og síðan Vatnsskarðið yfir í Skagafjörð. Ákváðum að stoppa í Olís Varmahlíð og þar var Guðni, á leiðinni heim af Fiskidegi á Dalvík, en í þörfinni fyrir eina með öllu. Maður truflar auðvitað ekki fólk í miðjum pylsukaupum þannig að tækifærið fór forgörðum.

Á leiðinni heim á Krók rifjaði sá eldri upp að hann hefði verið starfsmaður á plani í Varmahlíð [ekki hans orð] þegar Sveinn Björnsson, fyrsti forseti Íslands, kom þar við og naut veitinga á hótelinu. Sjötíu árum fyrr eða þar um bil. Það er alltaf gott tilefni til að stoppa í Varmahlíð.

Nú á laugardaginn verður kosinn nýr forseti Íslands. Það eru tólf í framboði, býsna ólíkt fólk, en í raun hefur kosningabaráttan verið áhugaverðari en maður hefði fyrirfram ætlað. Nú er bara að gera upp hug sinn og setja exið við góða manneskju sem við getum treyst til góðra verka fyrir land og þjóð. Eina með öllu ... nú eða einn með öllu.

Óli Arnar Brynjarsson
ritstjóri

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir