Er gott að búa á Íslandi? Áskorandi Gunnar Pálmason

Við hjónin fórum til Gran Canary í byrjun febrúar og dvöldum þar í fjórar vikur. Við höfum ekki komið á þessar slóðir líklega um 17 ár, höfum í staðinn dvalið í Suður Evrópu á haustin til að lengja sumarið.

En nú fannst okkur kominn tími til að endurnýja kynni okkar af Canary, drifum okkur á Netið og pöntuðum delux Bungalow eins og það var kallað í Maspalomas, rólegur og góður staður en ég hafði ekki höfuð í að átta mig á deluxinu, en það er önnur saga. Dvölin þarna var að sjálfsögðu ljómandi góð, hitastig var +18-23°C alla daga en gat verið nokkuð hráslagalegt á nóttunni, sérstaklega ef skýjað var seinni part dags eða jafnvel rigning.

Ótrúlegur fjöldi Íslendinga á eftirlaunaaldri virðist dvelja þarna í talsverðan tíma yfir veturinn, Jóhanna konan mín sagði einhverju sinni að hún hefði á tilfinningunni að heimilismenn Grundar hefðu tekið sig til og fjölmennt til Canary. Einhverju sinni fórum við á kínverskan veitingastað og þegar inn var komið hljómaði söngur Björgvins Halldórssonar í salnum, mér fannst að kínversk tónlist væri frekar viðeigandi. Skýringin kom um það leyti sem við vorum að fara, þá fylltist allt af Íslendingum sem voru greinilega búnir að hita sig upp fyrir matinn og voru í góðu stuði.

Það fór ekki fram hjá manni í þetta skiptið frekar en í öll önnur skipti sem farið er út fyrir landsteinana, nema þegar farið er til Norðurlandanna, hvers konar ræningjabusiness er stundaður í verslunum hér á landi. Það getur hins vegar verið að þeim sem lifa og starfa í þessum löndum þar sem okkur finnst allt svo ódýrt, finnist það sama um sína kaupmenn vegna þess að launin eru þar lægri en hjá okkur. Ég hélt þó að Þýskaland væri ekki neitt láglaunasvæði en það gildir það sama þar þegar keyptur er fatnaður eða í matinn.

Sama er að segja um gatnakerfi það virðist alls staðar vera betra en hér, þar sem ég hef komið, að undanskyldu Póllandi og Möltu ég verð þess nokkuð var þar sem ég er alltaf með bíl þar sem ég dvel.

Hvað sem fleira má segja um ágæti annarra þjóðfélaga er það svo að við Íslendingar höfum það að mínu mati mjög gott. 

Ég dreg í efa að það sé nokkurs staðar betra að búa, ef fólk er tilbúið að leggja eitthvað á sig, eiga allir með fulla heilsu, auðvelt með að eignast íbúð.  Reksturskostnaður húsnæðis er fremur lítill hjá meirihluta landsmanna, menntun þjóðarinnar góð, heilbrigðiskerfið gott og mikið niðurgreitt af Sjúkratryggingum.

Í raun er hér gott veðurfar þótt það sé að jafnaði fremur kalt, vetrarhiti yfirleitt einhverjar gráður sitt hvoru megin við frostmarkið og algengasti sumarhiti 12-16° með nokkrum undantekningum.

Já, það er gott að búa á Íslandi, það er land tækifæranna fyrir  þá sem bera sig eftir þeim.

Gunnar skorar á Sigurjón Guðbjartsson á Skagaströnd að koma með pistil.

Áður birst í 16. tbl Feykis 2018

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir