Ferðast með Guðrúnu frá Lundi - Áskorendapenninn Kristín Sigurrós Einarsdóttir, Hofsósi

Í þessum rituðum orðum er ég enn á ný að leggja upp í ferðalag með skáldkonunni góðu Guðrúnu frá Lundi. Undanfarin misserin höfum við stöllur ferðast víða, ásamt langömmubarni hennar, Marín Guðrúnu Hrafnsdóttur. Líklega víðar en Guðrún gerði nokkurn tímann í lifanda lífi. Hefur það verið ánægjulegt að leggja lóð á vogaskálarnar til að halda á lofti nafni þessarar merku konu.

Upphaf þessara ferðalaga má raunar rekja til starfa minna hjá Feyki. Þegar bókin Afdalabarn var gefin út fékk ég það verkefni að skrifa stutta grein um Guðrúnu og fór að afla mér upplýsinga um æviferil hennar. Komst ég að því að tiltölulega lítið hafði verið ritað um skáldkonuna sjálfa, að minnsta kosti ef miðað er við það magn bóka sem hún ritaði sjálf. Jafnframt kviknaði sú hugmynd að bjóða nokkrum áhugasömum aðilum í dagsferð þar sem ævi hennar væri rakin og komið við á þeim stöðum sem hún bjó um ævina. Skemmst er frá að segja að nú hafa á þriðja hundrað farþegar farið með mér í slíkar ferðir, sem hafa verið einstaklega ánægjulegar. Jafnhliða hef ég les allt sem ég hef komist yfir um Guðrúnu og skáldverk hennar, sem telur 27 bækur.

Það var svo í fyrstu ferðinni sem leiðir okkar Marínar lágu saman. Fljótlega kom í ljós að við gengum báðar með þá hugmynd í kollinum að setja upp sýningu um Guðrúnu. Var hún opnuð á Sauðárkróki þann 3. júní 2017, en þann dag voru 130 ár liðin frá fæðingu skáldkonunnar.

Nú liggur leið okkar þremenninga á Selfoss, eftir að sýningin hefur komið við í Reykjavík, á Akranesi og Egilsstöðum. Sjötti áfangastaðurinn verður svo Reykjanesbær og þaðan er áformað að hún fari á heimaslóðir í Fljótum. Það hefur verið einstaklega gaman að fylgja þessu verkefni eftir. Auk þessa höfum við, ýmist saman eða hvor um sig, haldið fyrirlestra og aðra viðburði tengda skáldkonunni.

Lengi hefur staðið til að skrifa nokkur orð og þakka enn og aftur fyrir þann stuðning sem sýningin hefur hlotið. Samfélagssjóður Eflu, Menningarsjóður KS og Uppbyggingarsjóður styrktu sýninguna fjárhagslega, ásamt fjölda fyrirtækja og stofnana á Norðurlandi vestra. Sveitarfélagið Skagafjörður lagði til húsnæði á sýningarstað á Sauðárkróki og Sauðárkróksbakarí kleinur með kaffinu sem Kaffibrennslan á Akureyri lagði til. Síðast en ekki síst skulu þeim frábæru konum, („yfirsetukonum“), sem í sjálfboðavinnu stóðu vaktina á sýningunni á Sauðárkróki, færðar innilegar þakkir. Að ekki sé talað um þær þúsundir sýningargesta sem hafa lagt leið sína á sýninguna víðsvegar um landið.

Það er fátt skemmtilegra en að taka þátt í menningarverkefnum. Fyrirtæki mitt, Söguskjóðan, sem starfar á sviði leiðsagnar og annarrar ferðaþjónustu, hefur haft það sem eina af sínum helstu áherslum að miðla þeim fjársjóði sagna sem til er á Norðurlandi vestra. Slíkar auðlindir eru endurnýjanlegar og eyðast ekki þótt af sé tekið. Möguleikarnir eru fjölmargir, en í mörgum tilfellum þarf að matreiða hráefnið fyrir neytendurna. Það er svo sannarlega verkefni framtíðarinnar hér á svæðinu og ég hlakka til að taka þátt í því áfram.

Að þessu sögðu er vel við hæfi að skora á brottfluttan Austur-Húnvetning, Marín Guðrúnu Hrafnsdóttur, að taka við áskorendapennanum.

Áður birst í 4. tbl. Feykis 2019

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir