Fjölgar kórónuveirufaraldurinn störfum á landsbyggðinni?

Á undanförnum vikum hefur færst í vöxt að stofnanir auglýsi störf sem ekki eru bundin við starfsstöðvar á höfuðborgarsvæðinu. Persónuvernd auglýsti tvö störf á Húsavík, Ferðamálastofa auglýsti sömuleiðis tvö störf án staðsetningar nýverið og Samband íslenskra sveitarfélaga er þegar þetta er skrifað með þrjú störf í umsóknaferli sem öll eru án staðsetningar.

Við sem um árabil höfum unnið að því að hvetja þessa þróun fögnum því að loks virðist hilla undir að stofnanir líti svo á að staðsetning skipti í mjög mörgum tilfellum litlu, eða engu máli. Því hefur verið haldið fram að kórónuveirufaraldurinn hafi hugsanlega ýtt undir hugarfarsbreytingu hvað þetta varðar enda unnu margir svo mánuðum skipti fjarri aðalskrifstofunni. Fjarfundir eru nú jafnvel taldir markvissari í einhverjum tilfellum og ætla má að þeir séu komnir til að vera. Við höfum því séð glöggt að ekki er nauðsynlegt að allir starfsmenn sitji á sömu skrifstofunni.

Kominn tími til segja mögulega einhverjir. Störf án staðsetningar hafa verið liður á byggðaáætlun síðan hún var samþykkt 2018 en hægt hefur gengið að ýta verkefninu almennilega úr vör. Vonandi vita atvinnuauglýsingar sem vísað var í hér að framan á gott og verða til þess að störf færist í auknu mæli á landsbyggðina.

Það hefur oft komið upp í umræðu um störf án staðsetningar að það gangi illa að fá fólk til að sækja um störf á landsbyggðinni. Sérstaklega þegar um er að ræða sérhæfðari störf sem krefjast mikillar menntunar. Í því samhengi er vert að nefna að um störfin sem Persónuvernd auglýsti staðsett á Húsavík bárust 106 umsóknir. Einnig má benda á að þegar brunavarnasvið Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar auglýsti 6 störf staðsett á Sauðárkróki á árinu 2020 var enginn hörgull af umsóknum og til starfanna réðust einstaklingar með mikla menntun og reynslu af málaflokknum sem um ræddi. Það fer því að verða óhætt að kveða niður þennan lífseiga draug um að ekki fáist hæft fólk í störf úti á landi.

Störf eru ein meginforsenda eflingar byggða. Flutningur opinberra starfa er ein leið til að skapa störf. Nútíma vinnulag gerir það að verkum að hvar starfsmaðurinn situr skiptir ekki alltaf máli, kórónuveirufaraldurinn hefur kennt okkur það. Aðstaðan þarf engu að síður að vera góð og á korti Byggðastofnunar yfir skrifstofuaðstöðu í boði á landsbyggðinni er óhætt að segja að nægt rými sé til staðar.

Það er ekki gefið að störf sem auglýst eru án staðsetningar endi á landsbyggðinni. Því er það afar mikilvægt að íbúar á landsbyggðinni sæki um þau störf sem auglýst eru og eins að þeir sem áhuga hafa á því að flytja út á land nýti tækifærið sem gefst á því að taka starfið með sér. Það eru fjölmargir sem vilja flytja út á land en hafa ekki tækifæri til þess starfs síns vegna. Það er óskandi að störf án staðsetningar, flutningur starfsstöðva á landsbyggðina, tækniþróunin og kannski að einhverju leiti kórónuveirufaraldurinn geri það að verkum að slíkt verði raunhæfari möguleiki en áður.

Við hjá Samtökum sveitarfélaga á Norðurlandi vestra bjóðum fram okkar aðstoð við að finna aðstöðu fyrir störf án staðsetningar í landshlutanum.

Unnur Valborg Hilmarsdóttir
framkvæmdastjóri, SSNV

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir