Fyrstu frásögur af keppni á hestum – Kristinn Hugason skrifar

Í anddyri reiðhallarinnar Svaðastaða á Sauðárkróki er að finna listaverk Einars Gíslasonar frá Brúnum í Eyjafjarðarsveit af skeiðkappreiðum þeirra Þóris dúfunefs á Flugu og Arnar landshornamanns, á hestinum Sini sem fram fór á Kili. Mynd: PF.
Í anddyri reiðhallarinnar Svaðastaða á Sauðárkróki er að finna listaverk Einars Gíslasonar frá Brúnum í Eyjafjarðarsveit af skeiðkappreiðum þeirra Þóris dúfunefs á Flugu og Arnar landshornamanns, á hestinum Sini sem fram fór á Kili. Mynd: PF.

Í þessum pistli og nokkrum þeim næstu ætla ég að fjalla um sögu keppna á hestum hér á landi. Í upphafi byggðar á landinu voru þó stundaðar keppnir sem fólust ekki í að keppt var á hestunum, þ.e. þeir voru ekki setnir, heldur var þeim att fram sem vígahestum og þeir slóust þar til annar lá dauður eða óvígur. Þetta er vitaskuld löngu aflagt en víða um heim þekktust og þekkjast jafnvel enn margs konar dýraöt. Verður ekki frekar um þetta fjallað hér en fyrir áhugasama er bent á bók sem ýmsir lesenda pistils þessa kannast eflaust við en það er bókin Faxi eftir dr. Brodda Jóhannesson, kunnan Skagfirðing, bókin kom út hjá Bókaútgáfunni Norðra á Akureyri árið 1947.

Í bókinni er fjallað um fjölmargt sem hestum tengist á háfleygan og skáldlegan hátt. Þar er sérstakur kafli um hestaöt sem heitir Hestavíg og annar sem ber nafnið Vígsla Kjalar en þar er tilþrifamikil frásögn um fyrstu skáðu kappreiðar Íslandssögunnar. Þar sem leysinginn Þórir dúfunef sem keypt hafði vonina í strokuhryssunni Flugu og náði að handsama, atti kappi við mikinn og margefldan hestamann, Örn að nafni, kallaður landshornamaður, á hestinum Sini. Í aðdraganda kappreiðanna hafði Örn sýnt tilþrifamikinn skeiðsprett sem lýst var í bókinni með vísu þessari:

Mökkur gýs úr götunum,
grjótið frýsar eldingum,
reiðargnýs með gagnyrðum
grundin lýsir tilþrifum.

Höfundar þessarar snjöllu vísu er ekki getið að öðru en að um húnvetnskan bónda sé að ræða. Hér er hins vegar um fjórða erindi kvæðabálks sem skáldbóndinn Valdimar Benónýsson á Ægissíðu á Vatnsnesi orti til þeirra Ásgeirs Jónssonar frá Gottorp og Gottorps-Blesa í tilefni af 50 ára afmæli þess fyrrnefnda. Svo er hins vegar skemmst frá að greina að Fluga og Þórir dúfunef höfðu betur og unnu veðmálið sem var undir. Tapið fékk óskaplega mikið á Örn og er við hæfi að grípa niður í bók dr. Brodda og birta tilþrifafrásögn af endalokum hans og reiðskjótans:

Örn rjálar góða stund við hesta sína og fer sér að engu óðslega, svo stígur hann á bak, og Sinir ber hann léttilega suður og austur sandana. Miðnæturbjarminn leikur um þá og heiði öræfanna fagnar þeim. Þegar Örn kom um Hofsjökul sunnanverðan, geystust Árvakur og Alsvinnur á himin og lýstu haf og hauður.

Undir felli því, er síðan heitir Arnarfell, áði hann í síðasta sinn. Þar eru sæmilegir hagar, en Sinir grípur ekki í gras. Hann nýr höfðinu að Erni, sem tekur þétt um það, maður og hestur horfast góða stund í augu.

Silfruð þoka brimar um jökulinn, yfir henni er himinninn heiður, blár og djúpur. Þaðan leggur ásbrú til Arnarfells. Örn bregður handlegg á makka hestsins, horfir til fellsins og stígur á bak. Þar sem dýpsta sprungan ristir jökulinn, þeysir hann á ásbrú.

Hvít þokan hrynur um brjóst hestsins, blámi himins laugar fax hans, en ásbrú dunar í fögnuði undir heilhuga manni, sem ríður á fund guða sinna.

Öllu svakalegar en þetta geta menn ekki tekið tapi í hestakeppni en Örn landshornamaður var jú það sem í orðkynnginni kallast, að vera heilhuga maður. Þóri dúfunef farnaðist vel og bjó á Flugumýri sem kennd er við afrekshrossið Flugu sem hér var frá greint.

Margir öttu kappi á hestum sínum í gegnum aldirnar, ekki þó með jafn hrikalegum hætti og í frásögninni hér á undan, allar voru þær keppnir þó æði lausar í reipum og ekki endurteknar með skipulegum hætti.

Talið er að fyrsta eiginlega tilraun manna til að vekja athygli á íslenska reiðhestinum, hraða hans og keppnishörku hafi verið gerð á Oddeyri á Akureyri þjóðhátíðarsumarið 1874 en þá var minnst þúsund ára byggðar á Íslandi og skemmtisamkomur haldnar víða um land. Frá keppninni á Oddeyrinni er sagt í Kappreiðaannál eftir Einar E. Sæmundsen sem birtist í bókinni Fákur – Þættir um hesta, menn og kappreiðar, búin til prentunar af Einar E. Sæmundsen og Hestamannafélagið Fákur gaf út í tilefni af aldarfjórðungsafmæli sínu og kom út í Reykjavík árið 1949.

Í frásögukaflanum lýsir höfundurinn, Einar E. Sæmundsen, yfir þeirri skoðun sinni að hann undrist raunar að til slíkra keppna skuli ekki hafa verið efnt víðar á landinu en á þjóðhátíð Eyfirðinga á Oddeyri og segir: „og með því minna á, að hesturinn hefir verið félagi vor frá öndverðu og „allt vort landnám stutt“ . . . . eins og Stephan G. Stephansson orðar það.“ Því næst snýr höfundurinn sér að því að lýsa þessum tímamótaviðburði og segir, með vísan til blaðsins Norðanfara:

... að veðreiðabrautin hafi verið „afmörkuð með smástaurum og strengjum á milli í hálfhring og var hún nálægt 280 föðmum á lengd“ . . . . Tvenn verðlaun voru veitt, „vandaðar beizlisstengur og silfurbúinn pískur“. Ekki voru verðlauna-hestarnir nefndir, en aðeins frá því skýrt, að Jón Jónsson á Munkaþverá hafi hlotið beizlisstengurnar, — „en næstu verðlaun [pískinn] hlaut Páll Jóhannesson í Fornhaga“. — Ekki er þess heldur getið, hvort keppt hafi  verið í skeiði eða stökki.

Þjóðskáldið og hestamaðurinn Hannes Hafstein ráðherra (1861-1922) orti nokkur ljóð sem lýsa hreyfingu og krafti hins fjörharða afrekshests. Flest tilheyra þau ljóðabálki sem kallaður er Norður fjöll og lýsir stemningum sem skáldið upplifði á ferð sinni á námsárunum í Lærða skólanum úr Reykjavík og norður í heimahagana í Eyjafirði. Í ljóðunum kemur fram svellandi keppnisandi sem hvoru tveggja er hægt að túlka bókstaflega sem ólgandi hestamennsku eða leggja í dýpri skilning þjóðmálabaráttunnar sem skáldið helgaði líf sitt fyrst og fremst. Birti ég hér lokaerindi kvæðisins Um Hólminn sem birtist fyrst í tímaritinu Verðandi, 1. árg. 1882. Hér vantar nú ekki hið svellandi kapp sem fylgir keppnum á hestum:

Að komast sem fyrst, og komast sem lengst,
er kapp þess, er langt þarf að fara.
Vort orðtak er fram. Hver sem undir það gengst
mun aldregi skeiðfærið spara.
Og færið er hér,
og óvíst er
hvort annan eins skeiðvöll finnum vér.

Í næstu greinum verður vefur keppnissögunnar ofinn áfram.

Kristinn Hugason.

Áður birst í 22. tbl. Feykis 2019

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir