Geta viðhorf haft áhrif á upplifanir okkar - Áskorandi Jenný Þórkatla Magnúsdóttir Hvammstanga

Guðný Hrund karlsdóttir sveitarstjóri í Húnaþingi vestra skoraði á mig og auðvitað hlýði ég því kalli. Ég hóf nám við Endurmenntun Háskóla íslands núna í haust og er að taka þar fjölskyldumeðferð.  Í því námi erum við að skoða okkur svolítið sjálf og og eru nemendur að læra hvert af öðru með því að deila sögum og reynslu.

Eitt verkefni sem við vorum að gera núna í nóvember er fjölskyldutré. Þar rakti ég fjölskyldu mína frá ömmum og öfum, foreldrum, systkinum foreldra og mín eigin systkini. Ég ræddi við ættingja mína og forvitnaðist um ástir og örlög og gleði og sorg hjá fjölskyldunni.

Þegar kynningin var búin gátu samnemendur mínir spurt aðeins út í þetta og voru þau að pæla í hver hefur verið mín fyrirmynd í lífinu, hvernig fjölskyldan tæki á áföllum og hvernig er notið gleðistunda.

Kennarinn ræddi svo um viðhorf mín til lífsins. Hvernig uppeldi mitt og lífsreynsla hafa mótað lífsviðhorfin. Þetta þykir mér skemmtileg pæling og hef ég verið að hugsa þetta svolítið síðan. Inní þetta bætist svo upplifun hvers og eins á lífinu og hvernig lífsviðhorfin koma inní það. Hvernig þetta vinnur allt saman, uppeldið, lífsreynslan og lífsviðhorfið sem hjálpar okkur með alla upplifun sem við verðum fyrir.

Upplifunin getur auðvitað birst okkur á svo marga vegu.  Það sem einum þykir mjög fyndið, brosir annar ekki. Það sem einn upplifir eitthvað svakalega gott er annar sem bara skilur það ekki. Gætu jákvæð lífsviðhorf gert upplifun okkar sterkari á jákvæðan hátt og neikvætt lífsviðhorf gert upplifun okkar sterkari á neikvæðan hátt.

Ætli að það sé hægt að rekja alla þessa þætti langt aftur? Ég hef ekki svör við því en það hljómaði þannig þegar ég var í þessari vinnu að það væri hægt að rekja þetta hjá mér eitthvað aftur. Ef að systkini mín hefðu gert þetta fjölskyldutré og svarað útfrá sínum upplifunum hefði þá myndin sem ég sé að fjölskyldunni orðið eitthvað öðruvísi? Kannski er þeirra upplifun ekki sú saman og mín.

Við þurfum bara að muna að virða upplifanir samferðafólks okkar, því það eru mismundandi lífsviðhorf hjá okkur öllum og við getum ekki gefið okkur hvað býr að baki þeirra.

Ég skora á Ingibjörgu Jónsdóttur, sviðsstjóri fjármála- og stjórnsýslusviðs í Húnaþingi vestra.

Áður birst í 44. tbl. Feykis 2018.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir