Góð ákvörðun að fara í Hússtjórnarskólann - Áskorandinn Bríet Guðmundsdóttir Sauðárkróki

Þyrey frænka mín skoraði á mig að taka við pennanum og ákvað ég að skorast ekki undan því. Ákvörðunin um hvað eigi að gera eftir mennta- eða framhaldsskóla getur verið erfið. Mér fannst það allavega. Að vera ekki ákveðin um hvað maður ætlar að verða „þegar maður verður stór“.

Ég var ekki ákveðin og hafði eiginlega bara ekki hugmynd um hvað ég ætlaði að gera. Rétt áður en ég útskrifaðist frá FNV ákvað ég að sækja um í Hússtjórnaskólanum í Reykjavík, þrátt fyrir að ég hafi ekki haft mikinn áhuga á handavinnu né eldamennsku. Ég var búin að heyra svo góða hluti um þetta nám og ákvað að kynna mér það betur. Eftir ekki svo langa umhugsun ákvað ég að slá til og sótti um.

Leiðin lá því suður þarna um haustið, skólinn byrjaði seinnipart águstmánaðar og var strax nóg að gera. Þegar ég byrjaði kunni ég varla að fitja upp en eftir rúman mánuð var ég búin að prjóna lopapeysu. Auk þess að læra að prjóna lærði ég að hekla, fékk góðan grunn í fatasaum, útsaum, matreiðslu, ræstingu og það sem mér fannst standa upp úr var vefnaður. Ég hafði aldrei prófað að vefa áður og fannst mér ótrúlega gaman að fá að kynnast því aðeins, en meðal þess sem ég óf voru værðarvoð úr ull, tvö barnateppi, annað úr bómull og hitt úr einbandi. Með góðum stuðningi kennaranna varð þetta mun minna mál en ég þorði að vona. 

Þessum tíma var vel varið og ótrúlega gefandi og þroskandi. Þarna kynntist ég skemmtilegum samnemendum úr öllum áttum og yndislegum kennurum. Fyrir mig hefur það eitt og sér að flytja til Reykjavíkur verið mjög þroskandi og skemmtilegt en um leið krefjandi og finn ég það alltaf betur og betur hvað það er gott að koma heim. 

Mig langar að rétta pennann áfram til frænku minnar, hennar Elísabetar Kjartansdóttur og sjá hvað hún hefur sniðugt að segja.

Áður birst í 47. tbl. Feykis 2018

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir