Grálúða og baunasúpa

Þrátt fyrir nýafstaðnar sveitarstjórnarkosningar er Feykir tileinkaður sjómönnum að þessu sinni enda sjómannadagurinn haldinn hátíðlegur um allt land um næstu helgi. Undirritaður hefur minna en ekkert að segja af sinni sjómennsku enda landkrabbi langt aftur í ættir. Þó er hann eigandi að smájullu nú og hefur fært fisk að landi í litlu magni þó.

Sem gutti  fékk ég að fara nokkra túra með æskuvini mínum og nafna, Palla Stefáns, en pabbi hans, Stebbi Páls var annálaður sjómaður og hafði gaman af því að hafa okkur um borð líkt og Mannsi og Kalli Hólm. Ég kýs alla vega að trúa því. Fyrst man ég eftir a farið var á Sóleyju SK8 og síðar á Blátindi.

Ekki man ég eftir neinni frægðarsögu af mér eða nokkurri hetjulund nema þá helst að hafa ekki orðið sjóveikur, öfugt við sjómannssoninn sem spjó reglulega yfir borðstokkinn.

Einu sinni gubbaði ég þó hressilega eftir að hafa innbyrgt mikið magn af baunasúpu og brimsöltu lambakjöti sem greinilega hafði gleymst að útvatna. Eftir þann túr gat ég ekki borðað kjöt og baunir í tvö ár sem var mikill söknuður.

Annar æskuvinur minn, Friggi Pálma, prófaði hins vegar togaralífið um tíma og lenti hann eitt sinn í miklu fiskiríi þegar hann var enn blautur á bak við eyrun. Var verið að veiða grálúðu í gríð og erg og ekkert gefið eftir í frítíma og Friggi með það hlutverk að henda út slóginu og því sem ekki átti að hirða. Allt í einu sjá menn að kemur þessi líka stóri golþorskur inn fyrir borðstokkinn og til að leyfa þeim nýbyrjaða að sjá eitthvað annað en flatfisk og groms, ýttu þeir þorskinum til hans. Tók Friggi þorskinn traustataki og hentir honum útbyrðis. „Hvað ertu að gera drengur, Hentirðu þorskinum!?“ æptu menn á Frigga sem spurði sakleysislega á móti: „Nú, erum við ekki á grálúðu?“

Sjómenn til hamingju með sjómannadaginn!

Páll Friðriksson

Leiðari 21. tbl. Feykis 2018

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir