Hægri Grænir er flokkurinn með lausnirnar
Senn líður að kosningum og þarf fólk að fara að ákveða hvernig verja skal atkvæði sínu. Eflaust eru margir sem þurfa ekki að hafa áhyggjur af því enda löngu búnir að ákveða að kjósa "flokkinn sinn". Þessi litla grein á lítið erindi til þeirra, enda kýrskýrt að sama hvað sá flokkurinn gerir af sér eða stendur sig illa þá er atkvæðaáskriftin ekki bundin neinum skilyrðum. Þessi grein er ætluð þeim sem átta sig á því að gömlu flokkarnir hafa ekki það sem til þarf að bera og vilja skoða aðra kosti. Það er engin tilviljum að svo mörg ný og efnileg framboð koma fram núna. Efnahagshrunið á Íslandi og eftirleikur þess hefur skilið marga eftir í sárum.
Núverandi stjórnarflokkar og fjórflokkurinn almennt, hafa hvorki getu né burði til að gera það sem þarf - að þroskast og breytast í takt við veruleikann. Þeir eru allir fastir í morfísleik, búnir að vera það lengi og verða það áfram. Landið þarf nýtt fólk sem leitar að nýjum lausnum og er opið fyrir góðum hugmyndum, sama hvaðan þær koma. Landið þarf ekki gamla rjúpu í nýjum galla að rembast við sama staurinn.
Við í Hægri Grænum, erum að berjast fyrir lausnum sem við trúum á. Nógu mikið til að stíga fram á svið stjórnmálanna og takast á við pólitíska refi sem eru með áralanga þjálfun í að segja það sem fólk vill heyra og afsaka eigið getuleysi með löngum flottum ræðum.
Við erum venjulegt fólk með hjartað á réttum stað og viljum breytingar. Við erum búin að að setja fram glæsilega og ítarlega stefnuskrá með nýstárlegar lausnir og frumlegar. Stefnuskrá okkar varð ekki til yfir helgi. Því miður er ómögulegt að gera öllum þessum lausnum skil í stuttri grein og því bjóðum við öllum að heimsækja vefsíðu okkar og kynna sér þær.
Þetta er hægt að gera án skuldbindinga - og vert að benda á að Hægri Grænir geta þolað hverjum sem er að taka undir með okkur í einhverju eða öllu.
Brýnustu lausnir, sem sem er að finna í stefnuskrá Hægri grænna, tengjast því að koma heimilum landsins, grunneiningu samfélagsins, til hjálpar strax. Það viljum við gera með því sem við köllum Kynslóðasátt. Það er raunhæf og einföld leið til leysa skuldavanda heimilanna án þess að það komi í hnakkann á fólki í gegnum skattkerfið.
Magnús Thorlacius
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.