HART Á MÓTI HÖRÐU

Eitt af því sem brennur á mér og flestum Íslendingum er það kjark- og framtaksleysi sem einkennt hefur rannsókn og aðgerðir í kjölfar efnahagshrunsins. Frá því í október hafa borist fréttir af gengdarlausri sjálftöku eigenda og stjórnenda bankanna, framferði þeirra virðist hafa verið með miklum eindæmum. Lög brotin og farið á svig við reglur. Boðaðar aðgerðir stjórnvalda gegn þessu fólki hafa verið fátæklegar og lítill pólitískur vilji til rannsókna eða athugana, hvað sem veldur.

 

Hversu magnað er það, að til þurfi þáttarstjórnanda Silfurs Egils til að opna augu ráðamanna fyrir nauðsyn þess að aðhafast? Það er dæmi um úrræðaleysi þingsins og getuleysi þingmanna að hafa ekki fyrir löngu haft forgöngu um að fá þessa konu, eða sambærilegan aðila, hingað til lands til að fræðast um hvað skuli gera og hvernig best verður náð árangri í baráttunni gegn óvinum Íslands. Nú eru margir mánuðir liðnir frá falli bankanna og allan tímann hafa þeir auðmenn sem stungu undan illa fengnu fé haft til að koma í skjól. Engar húsleitir, ekki hald lagt á nein gögn að því er vitað er og ekki berast fregnir af því að neinn hafi yfirhöfuð verið yfirheyrður vegna þessa. Eins og Joly benti á í Silfrinu, verðum við að koma á fót alþjóðlegu teymi rannsakenda sem þekkja þau brögð sem hér hefur verið beitt og vita hvernig best er að rekja slóð peninganna. Slíkt teymi, með hjálp íslenskra sérfæðinga væri öflug sókn gegn óvinum Íslands.

 

Hafa skal í huga að ekki eru allir auðmenn eða fyrrum auðmenn glæpamenn, og enginn er sekur fyrr en sekt er sönnuð. Við búum við réttarríki, og því verður að gæta að því að fara ekki offari.  Menn eru saklausir þar til sök sannast. En rannsókn þessa þolir enga bið og engu má til spara. Sömu aðferðafræði á að beita á hvítflibbaglæpamenn og aðra brotamenn. Komist ég á þing get ég glaður lofað því að ég mun ekki láta mitt eftir liggja í að leita allra leiða til að koma lögum yfir óvini Íslands. Stundum er gott að bjóða hinn vangann. En í þessu tilfelli skal hart mæta hörðu.

Við rannsókn og eftirmála efnahagshrunsins eigum við að nýta okkur þá þekkingu sem er til. Við þurfum ekki að finna upp hjólið. Hin pólitíska afstaða verður að vera: „Harka“.

 

Með kveðju,

Sigurður Örn Águstsson.

Stefnir á 2-4 sæti í profkjöri Sjálfstæðisflokksins.

www.sigurdurorn.is

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir