Hér á ég heima

Ég hef nær allt mitt lífsskeið búið á Blönduósi, já ég veit, staðnum sem fáir vilja eiga sameiginlegt með samnanber nýliðnar kosningar um sameiningu innan Austur-Húnavatnssýslu. En þetta er staðan og við það þurfum við að lifa áfram í sátt, a.m.k. mun ég gera það.

Ég met kosti þess að búa í fámenni og nálægð við íbúa og fyrir því hef ég mín rök. Um daginn hringdi starfsmaður öldrunarþjónustunnar í mig og spurðu hvort ég hefði eitthvað heyrt í föður mínum þar sem hann var ekki heima. Ég svaraði því til að gleymst hafi verið að tilkynna hann í sumarfrí og því fór sem fór. En mergur málsins er samhugur samfélagsins og fyrir það er ég þakklátur. Nær umhverfi skiptir máli og hér mun ég eflaust bera beinin í fyllingu tímans. Margt mætti vera betra, t.d. væri flott að hafa hér banka með opnunartíma og tannlækni, en ég hef verið í viðskiptum við landsbankann á Hvammstanga frá árinu 1998 og það mun ekki breytast.

Tannlækni þarf ég ekki því ég tel mig vera hjá albesta tannlækni landsins og hann er á Sauðárkrók og ekki mun ég skipta um tannlækni þó hingað komi tannlæknir til starfa. Og ekki má gleyma því að Sauðárkróksbakarí er með eitt besta rækjusalat í heimi, ef þú lesandi góður ert búinn að prófa það, þá veistu að ég hef rétt fyrir mér. En mergur málsins er samt sá að þegar ég skipti um bankaþjónustu og þegar ég þurfti að skipta um tannlæknaþjónustu þá voru þetta breytingar sem ég óttaðist, en sá ótti var óþarfur því nú er ég betur settur með þessa hluti en ég var. Breytingar þurfa því ekki að vera til verri vegar og breytingar hafa oft fært okkar hagsæld og betri þjónustu.

Hér á Blönduósi er mikil uppbygging í gangi. Grunnskólinn er að stækka vegna fjölgunar nemanda og langþráð bið eftir nýrri byggingu undir list- og iðngreinar loks á enda, verkefni sem mér finnst vera mjög brýnt og frábært. Skólalóðin er frábær með fjölda leiktækja og flottum frágangi, leiktæki sem nýtast ekki bara nemendum heldur líka þeim mikla fjölda ferðamanna sem hér stoppa. Hér eru íþróttamannvirki góð og mitt mat er að sundlauginn okkar sé með þeim betri á landinu. Uppbygging á nýrri slökkvistöð er gangi til að auka öryggi okkar og bæta aðstöðu slökkviliðsmanna.

Íbúðarhúsum fjölgar nær mánaðarlega og bærinn farinn að skarta sínu fínasta fyrir Húnavöku, að ógleymdum gæsunum sem fjölga all hressilega yfir sumarmánuðina. Langþráður draumur um góða göngubrú yfir Hrútey í paradísina okkar er loksins orðinn að veruleika. Golfvöllurinn okkar er í hamskiptum þessa daganna og hlakka ég til að geta spilað hann á næsta ári, lagfæringar og breytingar sem ég veit að munu gera völlinn enn betri en hann er núna.

Þannig að HÉR hef ég margt, en takið eftir HÉR er líka Hvammstangi og Sauðárkrókur. Er það kannski mergur málsins? Gleymum við oft að hugsa um nærumhverfið þegar við óskum okkur hitt og þetta eða er hugsuninn kannski að ekki sé hægt að nýta þjónustu sem önnur svæði eru með, því þannig værum við að styrkja innviði þess sveitafélags.... því vil ég ekki trúa.

En þessu til stuðnings er hér sönn saga sem gerðist um borð í Nökkva HU-15. Eitt sinn er við vorum á leið á miðinn, kom þá einn hásetinn inní borðsal og sagði yfir hópinn að nú ættum við að hætta að versla við Krútt, sem var bakarí hér á Blönduósi. Einn spurði afhverju ættum við að hætta að versla hjá þeim og var svarið jú eigandi Krútt væri kominn á Bens ( sem var að vísu fremur gamall, en það skipti ekki máli). Var þá spurt á móti hvert ættum við að færa okkar viðskipti til og lá svarið beint við að versla við Kristjáns bakarí. Þegar spurt var á móti hvort hann vissi hvernig bíl Kristján ætti var fátt um svör.

Áður birst í 28. tbl. Feykis 2021

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir