Hvað er það versta sem getur gerst? :: Áskorandi Helga Guðrún Hinriksdóttir

Það hefur pottþétt margoft verið skrifað um þetta viðfangsefni. Pottþétt. Og ábyggilega áður hér í Feyki. Ég held samt að það sé ekki hægt að skrifa eða fjalla of oft um þetta. Um hvað þá? Jú, að gera það sem mann langar til. Að fara út fyrir rammann. Takast á við krefjandi verkefni. Njóta.

En hvað langar mann svo sem til að gera. Stundum veit maður það ekki fyrr en tækifærin detta upp í hendurnar á manni. Ég man vel þegar fyrsta söngvarakeppnin var haldin á Hvammstanga árið 1998 og mig langaði svo til að prófa að taka þátt. Ég hafði oft tekið þátt í uppsetningum hjá leikfélaginu, hafði meira að segja sungið þar á sviði en hafði aldrei prófað að syngja í hljóðnema. Og mig langaði til að prófa. En þorði ekki. Svo ég spurði konur í kringum mig hvort einhver þeirra myndi vilja syngja með mér og fann að lokum eina. Svo ég skráði okkur.

Mætti svo á æfingastað á tilsettum tíma. En var ein, því hin hafði tafist útaf gestum. Svo ég sat þarna ein í stresskasti. Ég var nú svosem ekki alein þarna því það var alveg slatti af fólki í sömu hugleiðingum og ég, nema þau hin ætluðu að syngja. Ég þorði ekki. Ég sendi skilaboð á hina sem var ennþá með gesti. Á endanum sagði við mig góð kona sem þarna sat „Syngdu bara ein. Gerðu það bara. Hvað er það versta sem gæti gerst?“

Einmitt! Hvað er raunverulega það versta sem gæti gerst? Að maður gerði sig að fífli? Svo ég stóð við skráninguna og tók þátt. Gerði mig ekki (mér vitanlega) að fífli. Og nú var ekki aftur snúið. Þetta var minn vendipunktur. Ekki það að ég hafi „fundið“ mig á sviði með hljóðnema í hendi, alls ekki, þó svo að ég hafi tekið þátt nokkrum sinnum aftur í söngvarakeppnum, nei heldur það að upp frá þessu fór ég að gera meira af því sem mig langar til að gera.

Þegar ég hugsa til elliáranna - sem ég vona svo sannarlega að ég fái að njóta - þá er mín mesta hræðsla að sjá eftir að hafa ekki gert eitthvað sem mig langaði til vegna þess að ég þorði ekki. Við lærum vonandi alla ævi en það gerist hraðar ef við leyfum okkur að fara út fyrir þægindaramman og prófa nýja hluti. Hvað er svo það nýjasta sem ég hef prófað? Jú, að vera þáttastjórnandi á FM Trölla. Og það ekki bara með einn þátt, heldur tvo. Því hvað er raunverulega það versta sem getur gerst?

Ég skora á Ólínu Sófusdóttur á Laugarbakka að koma með næsta pistil.

Áður birst í 14. tbl.  Feykis 2022

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir