Hvar er nýbygging Árskóla ? – og íþróttahúsið á Hofósi?

Í vor fóru frambjóðendur núverandi sveitarstjórnarmeirihluta um héraðið og lofuðu þessari framkvæmd hér og hinni þar allt eftir því hvar þeir voru staddir. Lofað var að fara strax í framkvæmdirnar fengju frambjóðendurnir brautargengi í kosningu. Sem sveitarstjórnarmaður vissi ég að fyrir þeim loforðum var ekki innistæða og því gæti Samfylkingin engu heitið nema að því verja þjónustu, forgangsraða í þágu íbúa við þær aðstæður sem blöstu við fyrir sveitarstjórnarkosningar.

Vinna meirihlutans við undirbúning fjárhagsáætlunar Sveitarfélagsins Skagafjarðar fyrir næsta ár er mjög ómarkviss,  það var farið seint af stað og umræða um forgangsröðun verkefna er engin. Í stað þess að byrja á að forgangsraða hvar skyldur sveitarfélagsins eru mestar og byrðar þess þyngstar er farið í excel æfingar og reynt að  reikna sig frá raunveruleikanum , láta eins og dæmið gangi upp og vona að íbúar skoði ekki æfinguna.

 Meirihlutinn hafnar pólitískri ábyrgð á fyrirsjáanlegum niðurskurði en varpar ábyrgðinni  útí sveit til þriggja ágætra einstaklinga – sem voru reyndar ekki í framboði og því ekki kjörnir af íbúum í verkið. Þremenningarnir eiga að fara yfir rekstur sveitarfélagsins til að finna leiðir til sparnaðar. Þau voru hinsvegar skipuð án þess að verkefni þeirra væri skilgreint nánar eða ákveðið hvað það mætti kosta. Verkefni þremenninganna  um bættan rekstur hefur semsé hvorki rekstrar- né verkáætlun, sem er afleit byrjun. Það er þó vonandi að þessi vinna skili árangri, þessir einstaklingar þekkja auðvitað vel til enda stjórnendur og fyrrum stjórnendur hjá helstu viðskiptaaðilum og skuldunautum sveitarfélagsins.

Ég vil standa við það hógværa kosningaloforð, að verja þjónustu Sveitarfélagsins Skagafjarðar við íbúa í lengstu lög. Það verður erfitt því fátt er um svör þegar spurt er um hvaða stefna verði tekin í rekstri þetta kjörtímabil. Því heiti ég á íbúa Skagafjarðar að styðja mig í þessari viðleitni með því að vera á varðbergi og sýna þá samstöðu sem til þarf að knýja stjórnvöld – að þessu sinni hér heima, til að setja fólkið og þjónustu við það í forgang.        

Gréta Sjöfn Guðmundsdóttir, sveitarstjórnarfulltrúi Samfylkingarinnar í Skagafirði.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir