Hvern skal kjósa…

Næstkomandi laugardag ganga íslendingar til kosninga. Þá verður kosið um hverjir skulu sitja í sveitarstjórnum um allt land. Hinsvegar snýst kosningin auðvitað um hvernig við viljum sjá framtíð sveitarfélagsins okkar þróast, hvernig við viljum að framtíð okkar allra þróist til næstu ára. En hvernig er hægt að finna út úr því hvaða lista skal kjósa? Það lítur ekki út fyrir að vera neitt sérstaklega auðvelt þar sem svo virðist sem mörg stærstu mál framboðanna séu í grunninn þau sömu. Mismunurinn á útgefnum málefnaskrám felst kannski að hluta í því hversu mikill “loforðaflaumurinn” er.

Einhverjir hafa skellt sér á fundi framboðanna til að hlusta og spyrja um málefnin en það getur einmitt verið afar fræðandi, ekki síst fyrir frambjóðendurna að vita hvað fólki liggur helst á hjarta. Ekki eiga þó allir heimangengt, ýmist vegna persónulegra ástæðna eða vinnu. Aðrir kynna sér málefni framboðanna í þeim auglýsingum sem birtar eru og svo eru þeir sem kjósa bara sama gamla flokkinn sinn af því að þeir eru í liði og standa með því sama hvað tautar og raular. Allt er þetta gott og gilt þar sem þetta er val kjósenda sjálfra og engu þvingað upp á þá. Hinsvegar er full ástæða fyrir kjósendur að horfa gagnrýnið á það sem sagt er og gert af hálfu framboðanna. Það liggur fyrir að í gegnum tíðina hafa ýmsir látið duga að eiga samtal við kjósendur “korter í kosningar” og síðan ekki söguna meir fyrr en að fjórum árum liðnum. Það liggur líka fyrir að ýmsum þykir ekki mikið gert með skoðanir kjósenda á því sem gera þarf í nærumhverfi þeirra.

Þá eru uppi afar skiptar skoðanir á því hvernig forgangsröðun hluta hefur verið mörg undanfarin ár af hálfu meirihluta sveitarstjórnar. Út frá þessu þurfa kjósendur að meta trúverðugleika þess sem ritað er á málefnalista framboðanna. Það er ekki víst að það dugi að skrifa bara nógu langan lista af loforðum til að fólk trúi að staðið verði við þau, burtséð frá því hve fögur þau eru.Þegar komið er í kjörklefann er æskilegt að vera búinn að ákveða hvern kjósa skal og koma þannig í veg fyrir að atkvæðið verði ekki bara sett á sama stað og venjulega af engri sérstakri ástæðu. Það er von mín að sem flestir sjái sér fært að mæta á kjörstað og taka þátt í þeirri lýðræðisveislu sem þá fer fram, en það er hreint ekki allsstaðar í heiminum þannig að almenningur fái að velja sér fólk til forystu.

Ef við hjá ByggðaListanum fáum til þess tækifæri, munum við vinna ötullega að því að framfylgja okkar málefnaskrá og þar leggjum við mesta áherslu á að grunnþarfir og grunnþjónusta við íbúana verði færð til betri vegar en nú er. Einnig er það okkar hjartans mál að íbúar sveitarfélagsins verði hafðir með í ráðum varðandi það sem gera þarf. 

Til hamingju kjósandi góður ef þú nýtir kosningarétt þinn. Greitt atkvæði er rétt greitt atkvæði.

Virðingarfyllst
Högni Elfar Gylfason

Höfundur er sauðfjárbóndi og skipar 5.sæti ByggðaListans í Skagafirði.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir