Ímyndanir Guðbjarts
Íbúum landsbyggðarinnar er brugðið vegna áforma ríkisstjórnarinnar um niðurskurð á heilbrigðisstofnunum vítt og breitt um landið. Það skýtur skökku við að sá sem stýrir aðförinni að heilbrigðisþjónustunni sé Guðbjartur Hannesson, heilbrigðisráðherra Samfylkingarinnar, en hann lofaði hátíðlega fyrir síðustu kosningar að gætt yrði sérstaklega vel að jafnvægi á milli höfuðborgar og landsbyggðar þar sem tekið verði einkum tillit til þeirra svæða sem fóru varhluta af þenslunni miklu.
Í Feykisviðtali þann 14. október sl. greinir Guðbjartur Hannesson frá því að honum hafi brugðið þegar hann sá svakalegar niðurskurðartölur sem vel að merkja enginn annar en hann lagði sjálfur fram í fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar. Guðbjartur reynir að skýla sér á bak við það að frumvarpið hafi verið að mestu unnið í tíð Vinstri grænna í ráðuneytinu. Vissulega er það rétt en engu að síður er vægast sagt ómerkilegt og kjánalegt að reyna að telja fólki trú um að hann hafi sem þáverandi formaður fjárlaganefndar ekkert vitað af stórfelldum skipulagsbreytingum á heilbrigðisþjónustu landsmanna.
Guðbjartur Hannesson hefur verið mjög upptekinn maður á kjörtímabilinu þar sem gríðarlega mikil orka fór í það hjá honum sem formanni fjárlaganefndar að þvinga Icesave-samninginn í gegnum þingið enda rann honum blóðið til skyldunnar sem gömlum Landsbankamanni. Afraksturinn af þeirri vinnu var sá að samningurinn var kolfelldur af þjóðinni og gott ef formaður fjárlaganefndar greiddi ekki sjálfur atkvæði gegn honum! Ekki minnkuðu annir Guðbjarts við að vera sleginn til ráðherratignar vegna vel unninna starfa í Icesave en hann treysti sér ekki til þess að mæta á einn einasta af fjölmörgum íbúafundum sem haldnir voru til að ræða grundvallarbreytingar á heilbrigðisþjónustu landsbyggðarinnar. Í áðurgreindu viðtali greinir Guðbjartur frá því að hann telji að einhver hrepparígur hafi komið í veg fyrir sameiningu
eða samvinnu heilbrigðisstofnana á Norðurlandi vestra. Fullyrðingin um hrepparíg er algerlega órökstudd og hlýtur að byggjast á ímyndun. Ég finn, sem sveitarstjórnarmaður á Norðurlandi vestra, miklu frekar fyrir miklum vilja til samvinnu og eindrægni allt frá Fjallabyggð til Bæjarhrepps, m.a. í málefnum fatlaðra og fleiri málum.
Í sjálfu sér er ekki hægt að búast við því að ráðherrar Samfylkingarinnar sem hafa verið mjög uppteknir í Evrópumálum, Icesave-málum og jafnvel heilbrigðisþjónustu í fjarlægum heimshlutum geti gefið sér tíma til að gægjast í fjárlagafrumvarp sem þeir eru sjálfir að leggja fram en þó verður að gera þá kröfu til þeirra að umræða um framtíð heilbrigðisþjónustu á Norðurlandi vestra byggist ekki ímyndunum og jafnvel fordómum.
Sigurjón Þórðarson
formaður Frjálslynda flokksins
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.