Íþróttakeppnir skjóta rótum :: Kristinn Hugason skrifar

Hrímnir frá Hrafnagili var heiðraður á landsmótinu 2002, eigandi hans og knapi: Björn Sveinsson á Varmalæk er klæddur í félagsbúning FT alfarið í samræmi við sem segir í tölulið 13.1 í lögum félagsins: „Búningur félagsins er blár jakki með merki félagsins á brjóstvasa, hvítar buxur, hvít skyrta, rautt bindi og rauður klútur í brjóstvasa. Mynd úr safni SÍH úr Íslenski hesturinn, útg. MM og SÍH, 2004, bls. 264.
Hrímnir frá Hrafnagili var heiðraður á landsmótinu 2002, eigandi hans og knapi: Björn Sveinsson á Varmalæk er klæddur í félagsbúning FT alfarið í samræmi við sem segir í tölulið 13.1 í lögum félagsins: „Búningur félagsins er blár jakki með merki félagsins á brjóstvasa, hvítar buxur, hvít skyrta, rautt bindi og rauður klútur í brjóstvasa. Mynd úr safni SÍH úr Íslenski hesturinn, útg. MM og SÍH, 2004, bls. 264.

Í síðustu greinum höfum við dvalið nokkuð við landsmótið 1970, en þá hófst vegferð sem við skulum nú feta áfram. Árið 1970 markaði upphaf þess þróunarskeiðs innan hestamenskunnar hér á landi sem kallast hestaíþróttir, ekki í merkingunni að á hestamennskuna hafi enginn litið sem íþrótt fyrr en þá, heldur að nýjar keppnisgreinar, sem fengu samheitið hestaíþróttir, voru teknar upp og knapar, einkum af yngri kynslóðinni á þeim tíma, fóru að leggja sig eftir þeim sérstaklega. Fyrst í stað var þetta nokkuð það sem líkja mætti við „jaðaríþrótt“ sem svo jafnt og þétt sótti í sig veðrið og er í dag orðin þungamiðjan í þeim hluta hestamennskunnar sem snýst um keppni.

Íslenski hesturinn er vissulega ein af gersemum þjóðarinnar, ekki bara vegna einstakra eiginleika sinna, heldur einnig vegna þess að í honum býr saga sameiginlegrar vegferðar hestsins og fólksins í landinu. Frá því að skipuleg reiðhestaræktun hófst hafa í raun undraverðar erfðaframfarir náðst. Miklar framfarir hafa einnig orðið í tamningu, þjálfun og allri meðferð hestsins. Þetta er niðurstaða vinnu framsýnna ræktenda og reiðfólks, rannsókna og þekkingaröflunar á hestinum og ræktunarkerfis í kringum hann en á næsta ári mun saga kynbótastarfsins sett á oddinn í þessum greinaflokki.

Með hrossaræktarstarfinu hefur í raun verið unnið afrek í virkri stofnvernd, þar sem gömlu landkyni, eins og íslenski hesturinn er; einangraður í landinu síðan um landnám, er fundið nýtt hlutverk og viðgangur þess þannig tryggður með sjálfbærum hætti til framtíðar. Með sjálfbærni er átt við að hvatinn til þessa starfs er sprottinn úr starfinu sjálfu, ekki er um beina vendun að ræða heldur þróttmikið starf þar sem áhugi og efnahagslegir hvatar drífa starfið áfram, ekki með dauða kyrrstöðu vendarinnar að inntaki heldur undir einkennisorðunum: Að fortíð skal hyggja þá framtíð skal tryggja.

Hér fyrr í greinaflokknum hefur verið sýnt fram á hvernig kynbótadómarnir og íslenska gæðingakeppnin voru í raun tvær hliðar á sama peningi en þegar svo íþróttakeppnin bættist við var lengi framan af kvartað yfir að kynbótastarfið og íþróttakeppnin væri á skjön en fyrr en margur hyggur má sjá merki þess að áhrif íþróttakeppninnar og hvernig hross hentuðu þar fór að hafa áhrif á kynbótadóma og kynbótastarf og þar eins og svo oft voru það markaðssjónarmiðin sem höfðu sín áhrif. Ræktendur áttuðu sig á því, misfljótt reyndar, og hver með sínum hætti að ekki tjóar að rækta önnur hross en þau sem seljast en sem betur fer eru markaðirnir ólíkir sem tryggir fjölbreytni því einsleitni er helsti óvinur allra kynbóta því í breytileikanum, sem tryggir möguleika til úrvals, liggur aflgjafi kynbótanna.

Evrópumeistaramótið 1970 – glænýjar keppnisgreinar
Evrópumeistaramótið fór fram dagana 5. til 6. september í Aegidienberg í Þýskalandi. Þar var fyrsti hringvöllurinn gerður sem ætlaður var fyrir keppnir á íslenskum hestum en hvorki keppnir í þeim stíl né vellir þekktust þá á Íslandi. Beinar brautir voru allsráðandi eða þá mjög stórar í sveig eða boga gerðar fyrir langhlaup sem voru vinsæl kappreiðagrein, eins og áður hefur verið fjallað um. Hringvöllurinn á staðnum var 200 m, höfundur þekkir ekki til heimilda um hvað réð ákvörðun um stærð vallarins, en hefur heyrt að það land sem úr var að spila í Aegidienberg hefði ekki leyft stærri völl en þetta.

Hringvellir ruddu sér svo fljótlega til rúms, ekki liggja fyrir heimildir um hvar fyrsti hringvöllurinn á Íslandi var gerður en líkum má leiða að sá fyrsti sem hefur verið í það minnsta snúraður út hafi verið á Hvítárbakka í Borgarfirði en árið eftir, 1971, fór fyrsta mótið sem haldið var í hestaíþróttum á Íslandi þar fram. Gera má ráð fyrir að hann hafi verið af sömu stærð og völlurinn í Aegidienberg þó má vera að hann hafi verið 250 m en fljótlega festist í sessi sú regla sem enn gildir að hringvellir ætlaðir til keppni í hestaíþróttum séu 250 m langir.

Gildir svo enn samkvæmt FEIF-reglum um keppnir (FIPO-reglur), gæðingakeppni skal hins vegar fara fram á 300 m hringvelli með samliggjandi beinni skeiðbraut sem sé a.m.k. 175 m löng, þó heimilt sé að keppa á völlum allt niður í 250 m, sjá nánar í reglugerð um keppnisvelli á heimasíðu LH og ítarefni á heimasíðu FEIF (lhhestar.is og feif.org). Jafnframt má svo leiða líkur að því að fyrsti fulluppbyggði löglegi keppnisvöllurinn fyrir íþróttakeppni hafi verið gerður á svæði Fáks í Víðidal í Reykjavík. Hvers konar ábendingar þar að lútandi eru vel þegnar en innan Fáks var fyrsta hestaíþróttadeildin stofnuð árið 1976.

Á fyrsta Evrópumeistaramótinu mættu keppnissveitir frá sex þjóðum með samtals 28 hross, löndin voru: Ísland, Þýskaland, Austurríki, Sviss og Danmörk með fimm hvert land og þrjú frá Hollandi. Sumir knapanna voru með fleiri en eitt hross. Lið Íslands var þannig skipað, skv. niðurstöðu úrtöku: Reynir Aðalsteinsson, Anton Guðlaugsson í Vík og Sigurður Magnússon í Hnjúki í Vatnsdal. Reynir var með þrjá hesta en hann hafði þá tekið við Stjarna frá Svignaskarði frá Skúla Kristjónssyni sem keppti á honum á úrtökunni auk tveggja annarra hesta sem hann vann sæti með, hinir tveir voru með sinn hvorn hestinn, Sigurður á Hnjúki með Blossa frá Aðalbóli (Hnjúki) og Anton með Gust frá Vík.

Keppnisgreinarnar á mótinu voru: Tölt, fimmgangur, „tvær gerðir fjórgangskeppni“, skeið, hlýðniæfingar og þolreið. Reynir var næst atkvæðamesti knapi mótsins en Walter Feldmann jr. var stigahæstur og vann fern gullverðlaun. Mest kvað að framgöngu Reynis á Stjarna en dró þó víðar inn stig og þeir hinir, einkum þó Anton. Ekki má gleyma að keppnisgreinarnar voru Íslendingunum framandi nema helst skeiðið. Íslendingarnir náðu þó að verða í öðru sæti í stigakeppninni á eftir Þjóðverjum en rétt á undan Dönum, sjá Hestar og menn 1987, Árbók hestamanna eftir Guðmund Jónsson og Þorgeir Guðlaugsson, útg. Skjaldborg.

Niðurlagsorð
Á mótinu var ætlast til að löndin klæddust samstæðum búningi og voru íslensku keppendurnir íklæddir gæruskinnsvestum, um það sagði Gunnar Bjarnason sem var m.a. einn af fimm dómurum mótsins sem dæmdu hver fyrir sig með spjaldadómum: „.Nokkuð voru skinnvestin fyrirferðarmikil, og hefðu knaparnir ef til vill orðið glæsilegri á að sjá í einhverjum öðrum búningi.“ Ættbók og saga íslenska hestsins á 20. öld. V. bindi eftir Gunnar Bjarnason, útg. Bókaforlag Odds Björnssonar 1989, bls. 140. Danir og Hollendingar voru í samlitum peysum hvort land, hinar þjóðirnar í reiðjökkum.

Klæðaburður hestamanna á Íslandi var nú einnig í þann mund að taka stakkaskiptum, eins og áður er að vikið, þetta merkisár fyrir hálfri öld, árið 1970, var Félag tamningamanna, FT, stofnað og var það fyrst til að taka upp félagsbúning.

Í næstu grein verður haldið áfram þar sem frá er horfið í þessari heillandi sögu.

Kristinn Hugason

Áður birst í 42. tbl. Feykis 2020

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir