Jarðgöng á Tröllaskaga

Það var ánægjulegt að heyra af sameiginlegri ályktun sveitarstjórnar Skagafjarðar og bæjarstjórnar Akureyrar  á dögunum þar sem stjórnvöld eru hvött til að tryggja fjármagn svo hefja megi vinnu við að skoða  möguleg veggöng milli byggðarlaganna. Þessi hugmynd er ekki ný af nálinni og hafa hugmyndir um þessi jarðgöng verið uppi á borðum í skipulagsvinnu í Skagafirði gegnum tíðina og eins hafa Skagfirðingar áður hvatt stjórnvöld til að skoða þessa vegabót.

Hingað til hafa menn verið að horfa á göng milli Barkárdals og Hjaltadals, þar sem í fyrstu var verið að skoða um 16 km löng göng sem myndu liggja í svipaðri hæð og Þverárfjallsvegur, en að undanförnu hafa verið viðraðar tillögur um göng sem lægju neðar og væru þá töluvert lengri eða allt að 20 km löng.

Ég hef lengi haft þá hugmynd að skoða ætti möguleika á tvennum styttri göngum  sem lægju norðar og færu úr utanverðum Hörgárdal yfir í Skíðadal og þaðan yfir í Kolbeinsdal. Þessari hugmynd var m.a. gerð skil í viðtali við mig í Morgunblaðinu 4.apríl 2014.

Vissulega kostar þessi útfærsla aðeins lengri göng í heildina, en hefur það umfram hina leiðina að styttri göng eru einfaldari í framkvæmd og rekstri, þessi leið mun einnig gefa möguleika á meiri vegastyttingu milli byggðalaganna. Kolbeinsdalur er auk þess langt um snjóléttari en Hjaltadalur og þar eru einnig betri aðstæður til vegagerðar og ekki yrði rask í byggð. Ljóst er að stystu möguleg göng yfir í Hjaltadal þyrftu að koma út innarlega í dalnum og leggja þyrfti því nýjan veg út að Hólum og líklegast endurbyggja veginn þaðan til að mæta aukinni þungaumferð. Þessi leið opnar einnig leið út Skíðadal og þaðan  út á Dalvík.

Vonandi kemst þetta mál á skrið fljótlega því mikið er í húfi til að tryggja blómleg samfélög, sem best er gert með greiðum samgöngum og samvinnu milli byggðarlaga. Þetta eru framkvæmdir upp á tugi milljarða og því telja margir að þetta  komi ekki til á næstu árum, en ef við setjum þessar upphæðir í samhengi við árlega landsframleiðslu á Norðurlandi þá er heildarkostnaður við þessa vegabót líklegast um og innan við 10 % af henni.

Ólafur Jónsson
Espilundi 6
Akureyri

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir