Keppnis- og kynnisferð Molduxa til Evrópu 1994 - fjórði hluti :: Við ramman reip að draga

Molduxar á ferð og flugi. F.v. Alfreð Guðmundsson, Hjörtur Sævar Hjartarson, Ingimundur Guðjónsson, Ágúst Guðmundsson, Pálmi Sighvatsson, Óttar Bjarnason, Geir Eyjólfsson og Margeir Friðriksson.
Molduxar á ferð og flugi. F.v. Alfreð Guðmundsson, Hjörtur Sævar Hjartarson, Ingimundur Guðjónsson, Ágúst Guðmundsson, Pálmi Sighvatsson, Óttar Bjarnason, Geir Eyjólfsson og Margeir Friðriksson.

OPATJA – PULA KRÓATÍA

Mánudagurinn 23. maí var að venju tekinn snemma og héldum við nú áleiðis til Opatja, sem er lítill sumarleyfisbær á Istruskaganum við hreinar strendur Adríahafsins. Árið 1974 dvaldist Ágúst í Opatja í þrjár vikur í skólaferðalagi Menntaskólans á Akureyri og hafði hann gaman af endurkomunni. Eftir að hafa spókað okkur í 28 gráðu hita í Opatja lögðum við af stað til Pula sem er syðst á skaganum og fengum gistingu á Vam hotel. Í bænum bjuggu um 83 þúsund manns þegar Uxarnir voru þarna á ferð og flugi. Í borginni er merkilegt hringleikahús byggt af Rómverjum árið 123 fyrir Krist, ekki ósvipað því sem er í Róm, þó minna að gerð.

Síðar um daginn lékum við körfuknattleik við heimamenn og þarna hittum við fyrir sterkasta liðið í ferðinni. Af tólf manna liði Pula manna voru a.m.k. átta menn vel yfir tvo metra á hæð. Einn þeirra hafði orðið heimsmeistari með gömlu Júgóslavíu, ólympíumeistari og margt fleira. Við ramman reip var að draga í leiknum og í sjálfu sér óþarfi að fjalla hér um úrslitin. Sem dæmi úr rimmunni má nefna að Óttar Bjarkan Bjarnason, sjálfur miðherji Molduxanna, skaut einu sinni aftur fyrir sig á körfuna, hann þorði nefnilega ekki að snúa sér að risunum í vörninni!

Annað má nefna að nokkur illa upp alin ungmenni horfðu á leikinn og ráku þau reglulega upp hlátursrokur þegar við reyndum að sækja að körfu Pula manna. Við gátum brugðið á það ráð eitt að skjóta þriggja stiga skotum að körfunni og kom Alfreð þar sterkur inn. Gátum við þannig klórað pínu í bakkann.

Á heimleið frá Slóveníu.
Frá vinstri: Gústi, Pálmi, Mundi,
Sævar, Alli, Geiri, Óttar og Margeir.
Næsti staður var Lublijana.

Um kvöldið buðu mótherjar okkur til veislu. Þar vakti athygli okkar liðsmaður einn Davo að nafni. Hann hafði einstaka matarlyst en eftir að hafa hesthúsað tólf kjúklingabitum var hann ekki enn mettur. Þá tók til máls stærsti leikmaðurinn sem var um 220 cm á hæð og sagði okkur frá brúðkaupi Davos sem nýlega var haldið. Til veislunnar voru elduð tvö lömb og snæddi Davo aleinn annan skrokkinn! Fáum árum síðar lést í Davo í Indónesíu þá sjómaður á flutningaskipi. Gengum við glaðir og ánægðir til náða um kvöldið og úrslit dagsins gleymd.

TRIESTE - LIDO Í FENEYJUM

Daginn eftir ókum við norður eftir Istru skaganum til Trieste, sem er borg við landamæri Ítalíu. Þar í bæ ákvað Geir að ná sér í skotsilfur í hraðbanka og nota til þess glænýtt kreditkort. Skipti engum togum að tækið gleypti kortið og harðneitaði að skila því aftur. Nú voru góð ráð dýr. Niðurstaðan varð sú að senda Ágúst og Jelic til fundar við bankastjórann og náðu þeir inn í bankann rétt fyrir lokun. Bankamaðurinn brást illa við kröfum þeirra félaga um að fá kort Geirs afhent og gaf í skyn að það væri andstætt reglum um slík tilvik og af háttbragði hans mátti ráða að viðtalinu væri lokið og við ættum að hafa okkur út. En hvorugur þeirra þverhausa sem þarna voru komnir á kontór bankastjórans voru á þeim buxunum. Hófu þeir að segja stjóranum frá keppnisferðinni og högum okkar á Íslandi. Smám saman bráðnuðu formlegheitin af bankastjóranum og ákvað hann að við værum heiðarlegir menn. Fengum við kortið afhent og kvöddumst við með virktum. Nú voru Geira allir vegir færir með gullkortið góða í vasanum.

Eftir tíu dropa af kaffi brunuðum við af stað til Feneyja og máttum engan tíma missa. Ekki gekk ferðalagið áfallalaust. Pálmi hafði af skörungsskap sínum tekið að sér fararstjórnina með þeim glæsilega árangri að við ókum lengst norður í Pó dalinn og mælti ýmist við Jelic, „turn left, turn right“! Árangurinn varð sá að við tókum hægri beygju norður dalinn í stað þess að beygja til vinstri niður að Feneyjum. En þetta voru flókin gatnamót. Er við stöðvuðum bílinn lamdi Petar hnefanum í bílinn og mælti: Ó Palmina, you crazy bitch!

Stund tók að snúa við og loks komum við að bryggjunni í Feneyjum kl. 16. Má segja að eftir ferðalag dagsins hafi Pálmi ekki verið í sérstöku uppháhaldi hjá bifreiðarstjóranum. Vegaskiltin hljóta að hafa snúið vitlaust.

Aðal erindi okkar til Feneyja var að spila á hraðmóti á eyjunni Lido. Þegar þarna var komið í ferðinni voru Uxarnir farnir að lýjast af látlausum kappleikjum, ferðalögum í súrefnislausum bíl og veisluhöldum. Við höfðum af forsjálni fest kaup á átta lítrum af Hennessey koníaki í Keflavík og bjargaði það okkur margoft frá köfnun í loftlausum bílnum. Þrátt fyrir það reyndist frammistaða Molduxanna með ágætum á mótinu og lögðum við okkur alla fram, orðnir kaldsveittir. Óttar og Sævar áttu stórleiki. Hinir ítölsku gestgjafar okkar færðu okkur fallegar gjafir sem við endurguldum eftir mætti.

Frú Zlatica Jelic ásamt syni sínum Filip.

Loks var okkur boðið til kvöldverðar og var maturinn einstaklega gómsætur og vel fram borinn. Við upphaf kvöldverðarins fannst gestgjöfum okkar, Molduxar drekka rauðvínið af full góðri lyst. Kom þá einn Ítalanna að háborðinu og sagði okkur í vinsemd að í þessu svokallaða rauðvíni væri umtalsvert alkóhól. Ef það efni væri innbyrt of hratt gæti það valdið svima.

Við beygðum okkur og bugtuðum af þakklæti fyrir þessar upplýsingar og jafnframt hlýju og vinsemd í okkar garð. En sennilega hafa Uxarnir haft meiri reynslu af neyslu alls kyns áfengra drykkja en okkar góðu gestgjafar. Var þá lokið formlegri dagskrá ferðarinnar.

Miðvikudaginn 25. maí ókum við til Trieste aftur og þá gafst í fyrsta sinn í ferðinni tími til að kíkja í búðir og slaka ögn á. Um kvöldið lentum við í vandræðum með bílastæði við hótelið okkar. Þar sem allir kapparnir voru óökufærir var bílnum ýtt inn á rétt stæði. Þá kallaði Pálmi til Petars sem sat við stýrið, „Petar ví möst ít the kar“ ! Fannst okkur þessi setning gullmoli ferðarinnar.

LUBLIJANA – VINARBORG – KAUPMANNAHÖFN - KEFLAVÍK – SAUÐÁRKRÓKUR

Daginn eftir héldum við til Lublijana í Slóveníu þar sem við kvöddum Petar Jelic vin okkar sem bauð okkur öllum til hádegisverðar á veitingastað sem nefndist Number Six. Framkvæmdastjórinn þar þekkti Jelic frá fyrri tíð, en Petar var þjóðþekktur körfuknattleiksmaður og þjálfari. Fór þarna fram hjartnæm kveðjustund og áttuðum við okkur á því að sennilega myndum við flestir ekki sjá Petar Jelic aftur. Kunnum við honum okkar bestu þakkir fyrir frábæra skipulagningu á þessari ógleymanlegu ferð og vinsemd í okkar garð. Stigu Uxar síðan upp í járnbrautarlest sem átti að flytja okkur framhjá Graz til Vínarborgar.

Óttar Bjarkan Bjarnason tók að sér
að festa ferðalagið á myndband.

Er um borð í lestina var komið var ákveðið að slá upp eins konar uppskeruhátíð ferðarinnar. Af stórmennsku sinni buðu Óttar og Ágúst félögum sínum upp á veitingar. Á boðstólnum í veitingavagninum var hvítvín og pylsur. Við höfðum af hyggindum geymt okkur ameríska dali og buðum þá nú til greiðslu. „Do you accept dollars?“ spurðum við þjóninn í lestarvagninum sem var bæði alkóhólisti og „hýr“. „Of course I accept dollars,“ svaraði þjóninn hortugt, en með grunsamlega hörðum hreim á t-inu sem við í gleðivímunni hjuggum ekki nægilega vel eftir.

Nú var allt klárt og lögðum við inn pöntun fyrir óteljandi hvítvínsflöskum og pylsum og var þá bjart framundan. Tóku nú Molduxar flugið eins og þeir einir geta og leið ferðatíminn undraskjótt og allt í einu vorum við komnir til Vínarborgar og vel fyrirkallaðir. Skutust Ágúst og Óttar nú fram í til þjónsins með dollarabúntið og hugðust gera upp skuldir sínar. Nú brá svo við að þjónninn neitaði að taka við amerísku dollurunum, en sagði að hér giltu aðeins slóvenskir tollarar!

Nú voru góð ráð dýr, stór ógreiddur reikningur og vitlaus mynt í veskinu. En þegar neyðin er stærst, þá er hjálpin gjarnan næst. Auðvitað hafði öðlingurinn hann Ingimundur heimsótt banka og leyst út dágóða upphæð í austurrískum schillingum eða „snillingum“ eins og Pálmi kallaði myntina, til gjafakaupa handa sínu fólki. Stóð það á endum að sjóður Ingimundar rétt dugði fyrir reikningi gestgjafanna sem voru ekkert sérstaklega borubrattir þegar Mundi hafði leyst þá undan skuldinni!

Og fleiri urðu ævintýrin. Sú venja hafði myndast hjá okkur að hafa gjarnan í einni tösku vegabréf, peninga og fleiri verðmæti. Ástæðan var sú að í búningsklefum íþróttahúsa Króata voru engar læsanlegar hirslur, reyndar var aðstaðan yfirleitt frekar bágborin á snyrtingum og í sturtuklefum. Vorum við því með eina tösku við liðsbekkinn sem geymdi veski okkar úr og vegabréf.

Er karlar gengu í góðum gír út úr járnbrautastöðinni í Vínarborg, skelltu þeir töskum sínum í flýti í farangursgeymslur leigubifreiða er þar voru til taks. Framundan var síðasta kvöld okkar í ferðinni og skyldi nú haldið á vertshús. Er komið var að hótelið okkar kom í ljós að eina tösku vantaði og það sem verra var að það var einmitt taskan góða með verðmætunum í. Nú rauk ölhitan á skömmum tíma úr mönnum. Illt var í efni og var skotið á neyðarfundi. Niðurstaðan varð sú að senda Margeir og Ágúst aftur til lestarstöðvarinnar og freista þess að endurheimta ferðasjóðinn.

Á leiðinni talaðist þeim félögum svo til að farsælast væri að snúa sér beint til lögreglunnar og óska eftir aðstoð. Annar okkar var svo forsjáll að hafa vegabréf sitt á sér svo við gátum fært sönnur á þjóðerni okkar. Á lestarstöðinni hittum við fyrir tvo lögreglumenn og var annar með óvenju langar neglur. Eftir að við höfðum kynnt okkur og erindi Uxa til Vínarborgar, tjáðum við þeim vandræði okkar. Skipti engum togum að laganna verðir smelltu byssum í hulstur og var völlur á þeim. Hröðuðum við okkur út á leigubílastæðið í humátt á eftir laganna vörðum þar sem þeir skipuðu bílstjórunum að opna farangursgeymslur á bifreiðum sínum sem þeir og gjörðu vafningalaust.

Í Feneyjum.

Í einum bílanna fannst taskan góða. Þvílíkur léttir greip þá sendiboða Uxa. Kvöddu þeir lögreglumennina með virktum sem höfðu reynst þeim sannanlega haukar í horni. Það voru glaðir sendimenn sem hittu félaga sína á hótelinu sem urðu málalyktum fegnir. Allur vindur var nú úr hetjunum sem fengu sér snarl og skelltu sér síðan í háttinn.

Föstudaginn 27. maí flugum við til Kaupmannahafnar þar sem við höfðum sex tíma til tómstunda uns flogið yrði heim. Uxar voru kátir að venju og undu sér vel m.a. á Strikinu. Þar tefldi Pálmi um peninga við skákmenn sem þar sátu og tapaði naumlega. Snædd var góð dönsk máltíð með öllu tilheyrandi.

Loks kom að heimferð og lentu Molduxarnir í Keflavík kl. 21.30 og héldu síðan rakleiðis norður á Krók. Heim komum við kl 3. Óviðjafnanlegu ævintýri var lokið.

--------------

Íþróttafélagið Molduxar heimsótti stríðsþjáða Króatíu árið 1994 og birtir Feykir þessa skemmtilegu ferðasögu í nokkrum áföngum en fyrsti hluti birtist í 22. tbl. 2022. Skrifin önnuðust Ágúst Guðmundsson og Margeir Friðriksson en formálann ritaði Ágúst Ingi Ágústsson, sagnfræðingur.

Heimildir:
Dagbók Margeirs Friðrikssonar
Ferðaáætlun

Munnlegar heimildir ferðafélaganna.
Ljósmyndir
Bréf

--------

Fyrri greinar:

Keppnis- og kynnisferð Molduxa til Evrópu 1994 - Fyrsti hluti :: Ísland viðurkennir sjálfstæði Króatíu og Slóveníu
Keppnis- og kynnisferð Molduxa til Evrópu 1994 - Annar hluti ::The Icelandic Old Star National team
Keppnis- og kynnisferð Molduxa til Evrópu 1994 - Þriðji hluti :: Móttökur líkt og þjóðhöfðingjar væru á ferð

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir