Kolefnisjafna rúntana :: Áskorandapenninn Jón Marz Eiríksson brottfluttur Skagfirðingur

Frá vinstri: Eiríkur Þór Jónsson, Tryggvi Freyr Jónsson, Jón Marz Eiríksson og Íris Halla Jónsdóttir. Aðsend mynd.
Frá vinstri: Eiríkur Þór Jónsson, Tryggvi Freyr Jónsson, Jón Marz Eiríksson og Íris Halla Jónsdóttir. Aðsend mynd.

Ég er fæddur á Hvammstanga og ólst fyrstu ár mín upp á Síðu og svo í Bjarghúsum við Vesturhópsvatn, Birna Jónsdóttir móðir mín er þaðan en Eiríkur Jónsson frá Fagranesi er faðir minn. Þegar ég var níu ára gamall fluttum við á Sauðárkrók og voru það talsverð viðbrigði. Það er margt búið að breytast á Króknum síðan þá og nýjasta breytingin sem ég tók eftir er að gamla barnaskólanum er búið að breyta í íbúðir.

Það eru margar minningar úr skólahúsnæðinu, til dæmis fyrsta glímuæfingin hjá íþróttafélaginu Þrym stjórnað af Árna Malla og Oddbirni. Það varð snemma ljóst að ég yrði ekki afreksmaður í glímu, enda var það ekki ætlunin heldur að hafa gaman og get ég staðfest það hér að það heppnaðist.

Þó sumir hlutir taka breytingum eru aðrir sem breytast lítið, eins og Fjölbrautaskólinn. Að vísu er það eins með skólann og gamla góða hamarinn sem var bara búið að skipta um skaftið þrisvar sinnum og hausinn tvisvar. Þá heldur skólinn minn áfram að útskrifa stúdenta, iðnaðarmenn og fleiri á færibandi. Ég segi oft að FNV gerði mig að þeim manni sem ég er í dag.

Þegar ég keyri fram hjá koma margar góðar minningar upp í hugann af skemmtilegum samnemendum víða af Norðurlandi og kennurum enn lengra frá. Björn Friðrik og Kristján Bjarni opnuðu heim raunvísinda fyrir mér að ónefndri Steinunni Hjartar sem kenndi mér efnafræði. Kemur það sér vel því ég vinn hjá efnafyrirtæki í dag. Eftir nám í FNV varð allt val auðvelt.

Vélaverkfræði varð fyrir valinu og síðustu tíu ár hef ég verið að vinna hjá Carbon Recycling International að reyna að sporna við hlýnun jarðar og ætli ég sé ekki langt komin með að kolefnisjafna alla rúntana sem ég fór í den.

- - - -

Ég þakka Gísla kærlega fyrir áskorunina og ég ætla að skora á skólabróðir minn hann Gunnar Sigurðsson.

Áður birst í 27. tbl. Feykis 2022

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir