Mætum á staðinn – íbúalýðræði í sveitarfélaginu Skagafirði

Íbúalýðræði og samráð við íbúa eru orð sem voru mikið notuð í aðdraganda sveitarstjórnarkosninga síðastliðið vor. Í því samhengi var meðal annars talað um þátttökuaðferðir, en þær eru nokkrar og mis bindandi. Nú í haust var tekin samhljóða ákvörðun í sveitarstjórn sveitarfélagsins Skagafjarðar að bjóða íbúum upp á opna íbúafundi þar sem rædd verður fjárhagsáætlun ársins 2019 og íbúum gefinn kostur á að koma með sínar hugmyndir um áhersluatriði í þjónustu og framkvæmdum.

Þetta er ein þátttökuaðferð af nokkrum þar sem íbúum gefst kostur á að taka þátt í stefnumótun sveitarstjórnar. Eins og gefur að skilja er þetta form ekki bindandi og ákvarðanatakan um endanlega forgangsröðun þjónustu og verkefna á höndum kjörinna sveitarstjórnarfulltrúa. Engu að síður getur þetta form verið mjög áhrifaríkt til að auka íbúalýðræði. En til þess þarf tvennt; annars vegar þarf kjörna fulltrúa sem eru tilbúnir að hlusta á íbúa og meta þeirra hugmyndir á hlutlausan hátt óháð pólitík og hagsmunum einstakra hópa og hinsvegar þurfa raddir íbúanna að heyrast. Til að þessir fundir séu áhrifaríkir og marktækir fyrir sveitarstjórnarfulltrúa, er lykilatriði að mætingin sé sem best, að umræður séu opnar og málefnalegar og sem flest sjónarmið komi fram. Það gefur auga leið að við getum ekki gert allt á árinu 2019, og verkefnin eru mörg. En með góðu skipulagi og samvinnu við íbúa er hægt að vinna markvisst að þeim verkefnum sem brýnust eru, forgangsraða þeim eftir þörfum hvers svæðis fyrir sig, og þannig byggja upp það samfélag sem við viljum búa í.

Aukið íbúalýðræði er eitt af því sem ByggðaListinn leggur gífurlega mikla áherslu á og fulltrúar listans og nefndarmenn hafa það að leiðarljósi í sinni vinnu. Að því sögðu, skorum við á ALLA íbúa sveitarfélagsins Skagafjarðar að mæta á þá íbúafundi sem verða haldnir víðsvegar í Skagafirði á næstu dögum og láta rödd sína heyrast.

28. nóvember:
-17:00 Hólar í Hjaltadal, Undir Byrðunni
-20:00 Varmahlíð, Menningarhúsið Miðgarður

29. nóvember:
-17:00 Hofsós, Höfðaborg
-20:00 Sauðárkrókur, Mælifell

ByggðaListinn

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir