Nói frá Saurbæ einn af uppáhaldshestunum - Hestamaðurinn Sigríður Gunnarsdóttir

Það er óhætt að segja að hestar séu stór hluti af lífi séra Sigríðar Gunnarsdóttur, sóknarprests á Sauðárkróki, þó kannski óbeint sé. Hún er gift tamningamanninum Tóta, Þórarni Eymundssyni, sem gert hefur garðinn frægan á keppnisvellinum innan lands sem utan. Þau Sigga og Tóti eiga þrjú börn, Eymund Ás (16), Þórgunni (13) og Hjördísi Höllu (6) en til gamans má geta að Þórgunnur hefur verið iðin í keppnum og unnið til verðlauna. Sigga er hestamaður Feykis að þessu sinni.

Hverra manna ert þú? -Ég er dóttir Helgu Árnadóttur og Gunnars Oddsonar í Flatatungu á Kjálka.

Hve mörg hross átt þú eða fjölskylda þín? -Ég á eina hryssu samkvæmt worldfeng og helming eða minna í svolitlum hópi. Við fjölskyldan eigum allskonar hesta, nokkra ferða- og fjölskylduhesta, þrjár hryssur sem við ræktum undan, fáein tryppi og örfáa sparihesta sem mér er sjaldan eða aldrei boðið á bak á.

Móskjóni, sá aftari, var mikill gæðingur og góður smalahestur.

Móskjóni, sá aftari, var mikill gæðingur og góður smalahestur.

Hver er fyrsta minningin tengd hestum? -Ætli það hafi ekki verið samningaviðræður við Kára bróðir um lán á Lúsa? Hann var eini reiðhesturinn í Tungu sem hægt að var kalla alvöru barnahest. Lúsi var mjög traustur og ólíkur öðrum hrossum í Tungu því hann var latur.

Hver er uppáhaldshesturinn þinn og af hverju? -Ég á marga uppáhaldshesta. Nói frá Saurbæ er einn þeirra. Hann er fyrsti hesturinn úr okkar ræktun sem slær í gegn. Nói var í úrslitum í A-flokki á Landsmótinu í sumar með eiganda sínum og knapa Sinu Scholz. 

Hvað var það skemmtilegasta sem þú gerðir í sumar, tengt hestum? -Við förum yfirleitt á hverju sumri í hestaferð með þremur öðrum fjölskyldum. Núna í sumar var riðið um blómlegar sveitir vestur í Húnavatnssýslu, m.a. yfir Hópið. Það var frábær ferð.  

Nói frá Saurbæ og Sina Scholz á Landsmóti hestamanna í sumar.

Nói frá Saurbæ og Sina Scholz á Landsmóti hestamanna í sumar.

Áttu einhverja sögu tengda hesti sem fallinn er frá? -Pabbi gaf mér móskjóttan hest þegar ég var stelpa. Móskjóni var undan Elg frá Hólum. Hann var mikill gæðingur en kaldlyndur og var lengst af númeri af stór fyrir mig sem knapa. Ég réði ekki almennilega við Skjóna fyrr en hann var orðinn harðfullorðinn. Skjóni hafði gaman af að smala. Eitt haustið lentum við Skjóni í niðaþoku upp á fjalli fyrir sunnan og ofan Tungu. Ég missti áttirnar undireins en Skjóni vissi alveg hvar hann var og fann bæði kindur og leiðina heim.

Hvað ertu að gera þessa dagana, eða á næstunni, tengt hestum? -Núna er spennandi tími í hesthúsinu þegar að ungu hrossin eru að koma í frumtamningu. Alltaf skemmtilegt að fylgjast úr fjarlægð með nýjum vonarstjörnum. Svo styttist í Laufskálaréttir, gaman að fara þangað ef vel viðrar.

Áður birst í 35. tbl. Feykis 2018

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir