Öflugur Skagafjörður – líka mitt mál!
Árið 2010 flutti ég í Skagafjörðinn og hóf búskap með unnusta minum Jesper. Okkur fannst þetta vera tækifæri sem við gátum ekki sleppt og við sjáum svo sannarlega ekki eftir því enda forréttindi að fá að byggja upp fyrirtæki í blómlegu héraði. Það voru vægast sagt viðbrigði að flytja frá Árósum í Danmörku, þar sem ég var í skóla og Jesper tiltölulega nýútskrifaður. Sumir höfðu á orði að við værum komin að mörkum hins byggilega heims. Við komumst samt fljótlega að því að þetta var alls ekki raunin. Okkur var vel tekið og það er ekki annað hægt að segja en að fólkið hér sé gestrisið og tilbúið að hjálpa þegar þess er þörf.
Að sjálfsögðu varð ég strax heilluð af fegurðinni hér í Skagafirði. Það er fátt fallegra en að keyra niður Vatnsskarðið þegar sólin er að setjast og horfa yfir Skagafjörðinn í allri sinni dýrð eða sitja í heita pottinum í sundlauginni í Varmahlíð og horfa á fjöllin í kring. Það sem kemur skemmtilega á óvart við lífið í Skagafirði er meðal annars fjöldi þeirra sem er á mínum aldri og eru bændur. Það er virkilega gaman að sjá að landbúnaður er ekki á undanhaldi.
En hvað fær mig til að vera með í pólítísku starfi, vilja fylgjast með og reyna að hafa áhrif? Er ekki mikið auðveldara að horfa á og taka ekki þátt? Ég tók meðvitaða ákvörðun um það að fyrst ég er ákveðin í því að búa og ala upp börnin mín hér þá eigi ég að láta það mig skipta hvernig þróun mála verður.
Málefni ungs fólks með börn skipta mig máli og í haust tók ég sæti í foreldrafélagi leikskólans Birkilundar í Varmahlíð. Þar hefur verið mikið rætt um húsnæðisvandamál leikskólans. Þar eru börn á biðlista og er þetta vandamál sem þarf að leysa. Að mínu mati hefði mér fundist betra að vita meira um flutningsáform leikskólans. Núna hefur verið haldinn kynningarfundur og hlustað hefur verið á rök foreldra og starfsmanna. Stefna verður að lausn þessa máls í sátt við meiri hluta þeirra sem þetta mál snertir. Veruleikinn er þannig í dag að báðir foreldrar treysta því að geta verið á vinnumarkaði og eigi ekki á hættu að missa af tækifærum í vinnu ef of langt hlé verður vegna barnsfæðinga.
Gott samfélag má alltaf bæta og til að halda fólki í Firðinum og fjölga íbúum þarf að fjölga atvinnutækifærum. Fjölmörg tækifæri á sviði ferðamennsku eru fyrir hendi og það er synd að sjá ekki fleiri ferðamenn stoppa og njóta alls þess sem hér er hægt að upplifa. Mér finnst vera kraftur og metnaður í íbúum hér og er bjartsýn á framtíðina í Skagafirði.
Munið að kjósa - þetta er líka ykkar mál!
Halla Ólafsdóttir, 7. sæti á lista Sjálfstæðisflokksins
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.