Örugg atvinnutækifæri og heildræn heilbrigðisþjónusta til framtíðar :: Áskorandapenninn Þorbjörg Inga Ásbjarnardóttir Húnaþingi vestra

Þorbjörg Inga Ásbjarnardóttir.. AÐSEND MYND
Þorbjörg Inga Ásbjarnardóttir.. AÐSEND MYND

Nú þegar sveitarstjórnarkosningar eru nýafstaðnar verður fróðlegt að fylgjast með efndum kosningaloforða og vinnu þeirra flokka sem náðu kjöri til sveitarstjórnar. Þar vonast ég sérstaklega eftir átaki til atvinnu- og búsetumála hér í sveitarfélaginu en það eru grunnstoðir og burðarvirki hvers sveitarfélags. Með öruggri atvinnu og húsnæði hefur fólk tækifæri til að setjast að og lifa af.

Þegar það er tryggt er hægt að fara að vinna að öðrum málefnum og hugðarefnum til að efla samfélagið og gera betur við íbúa. Án tækifæra til atvinnu og búsetu verða engir íbúar til staðar svo til mikils er að vinna hjá kjörnum fulltrúum að forgangsraða rétt.

Sveitarstjórn þarf að vinna að því að sækja ný störf inn á svæðið og einnig að styðja við, greiða veg og vinna með því fólki sem vill skapa sér atvinnutækifæri og hefur hugsun, metnað og kraft til nýsköpunar og atvinnuuppbyggingar. Ekki er síður mikilvægt að halda í sérþekkingu íbúa og þá atvinnu sem þegar er á svæðinu og missa ekki störf í burtu eða fólkið sem vinnur störfin.

Hér á Hvammstanga höfum við öfluga heilbrigðisstofnun sem mikilvægt er að sveitarstjórn styðji til að haldi sinni starfsemi. Sem starfandi hjúkrunarfræðingur við stofnunina og íbúi hér í sveitarfélaginu veit ég hversu mikilvægt er fyrir alla íbúa hér að starfsemi hennar verði áfram.

Heilbrigðisstofnunin var sameinuð Heilbrigðisstofnun Vesturlands árið 2010. Tryggja þarf að minni rekstrareiningar eins og Heilbrigðisstofnunin á Hvammstanga týnist ekki í umfangi og rekstri sameinaðrar stofnunar. Hættan í viðamiklum sameiningum getur orðið sú að minni stofnanir mæti afgangi í rekstri og starfsemi þeirra verði skert.

Heilbrigðisstofnunin þarf að hafa öflugan stuðning kjörinna fulltrúa sem tala fyrir og vinna að því að efla og styðja við stofnunina. Með því er frekar hægt að standa vörð um starfsemi hennar og sporna við niðurskurði. Frá árinu 2010 hefur starfsemi öldrunardeildarinnar verið skert um fimm hjúkrunarrými sem er mjög slæm þróun sem þarf að snúa við. Í dag eru þrettán hjúkrunarrými og tvö sjúkra- og bráðarými á sjúkra- og öldrunardeildinni. Einnig er starfrækt dagþjónusta, fyrir eldra fólk og þá sem á þurfa að halda í húsnæði deildarinnar í samvinnu við félagsþjónustu sveitarfélagsins.

Við stofnunina starfa nú 54 einstaklingar á heilsugæslu, sjúkra- og öldrunardeild og við sjúkraflutninga. Mikilvægt er að halda í allt starfsfólk stofnunarinnar því starfsfólkið er hjarta heilbrigðisstofnunarinnar. Þar starfa bæði fagmenntaðir og ófaglærðir en mikil aukning og vakning hefur verið hjá starfsfólki hér til menntunar í heilbrigðisstörfum.

Á undanförnum fimm árum hafa sjö hjúkrunarfræðingar lokið námi í hjúkrunarfræði eða flutt í sveitarfélagið og héldu þrír áfram í framhaldsnámi í hjúkrun og útskrifast á þessu og næsta ári. Fimm sjúkraliðar hafa útskrifast, eru nú í námi eða hafa flust hingað. Þrír einstaklingar hafa lokið grunnnámi í sjúkraflutningum og einn er í framhaldsnámi sem bráðatæknir. Þá hefur einn lokið námi sem heilbrigðisgagnafræðingur.

Með aukinni menntunarstöðu eflist starfsemi heilbrigðisstofnunarinnar og frekar er hægt að tryggja heilbrigðis þjónustu áfram innan svæðisins sem er öllum íbúum þess í hag. Fjarnám, bæði í framhalds- og háskólanámi, hefur opnað ný tækifæri til allrar menntunar. Hvati fyrir heilbrigðismenntun þarf að vera örugg atvinna að námi loknu við stofnun sem sveitarstjórn og kjörnir fulltrúar hafa metnað til að vinna að og sækja bætta hagsmuni og tækifæri fyrir.

Í Húnaþingi vestra er gott að búa. Ég er bjartsýn að eðlisfari og lít vongóð til komandi daga og ára. Þar vil ég sjá vakningu og sókn til atvinnuuppbyggingar og búsetuúrræða. Halda þarf í alla þá atvinnu sem er innan svæðis, ýta á og sækja fleiri störf og styðja við ný atvinnutækifæri og uppbyggingu. Að hafa örugga heilbrigðisþjónustu í sveitarfélaginu er mikilvægt öllum íbúum þess. Hér þarf sveitarstjórn að beita sér og gera fulla grein fyrir mikilvægi þess að halda starfsemi Heilbrigðisstofnunarinnar á Hvammstanga í vexti og uppbyggingu. Það tryggir örugg atvinnutækifæri og heildræna heilbrigðisþjónustu til framtíðar fyrir íbúa þess.

- - - -

Ég skora á Liljönu Milenkoska til að skrifa í Feyki.

Áður birst í 26. tbl. Feykis 2022

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir