Plast, plast, plast og aftur plast :: Áskorendapenni, Lilja Jóhanna Árnadóttir, Blönduósi

Lilja Jóhanna.
Lilja Jóhanna.

Það eru efalaust margir á mínum aldri sem muna eftir laginu Lax, lax, lax og aftur lax sem flutt var af Guðmundi Jónssyni og heyrðist oft í útvarpinu þegar mín kynslóð var að að alast upp. Lagið fjallar um mann sem hefur mikla ánægju af laxveiði, jafnvel haldinn laxveiði áráttu og sleppir ekki tækifæri til þess að veiða ef nokkur kostur gefst. Ég hef aldrei verið laxveiðikona, hef reyndar aldrei á ævi minni veitt lax og þekki þar af leiðandi ekki þá ánægju sem örugglega fylgir því að setja í myndarlegan lax en kannski má segja að ég sé orðin plastveiðikona sem gríp upp plast ef nokkur kostur er.

Sá virðist vera munurinn á fjölda af laxi og plasti að ef laxinn er ofveiddur fækkar honum mikið og hætta á því að stofninn nái sér ekki á strik og hverfi alveg af ákveðnum svæðum en um plastið virðist gegna öðru máli. Það er sama hvað tínt er mikið af því, það kemur alltaf meira í staðinn.

Plast er frábært efni, endist lengi, hægt að móta það að vild, hafa það þykkt eða þunnt, hart eða mjúkt og framleitt í öllum litum. Það er allstaðar í umhverfi okkar inn á heimilinu í iðnaðinum, landbúnaðinum utan um matvæli og í mörgum leikföngum. Sá galli fylgir plastinu að þegar við hættum að nota það breytist það í rusl. Rusl sem er skaðlegt lífrík og setur ljótan svip á umhverfi okkar.

Já plast er endingargott, það getur tekið plastflösku um fjögurhundruð ár að brotna alveg niður svo ef einhver af forfeðrum okkar hefði skilið eftir plastflösku árið 1621 er möguleiki á að hún væri rétt að hverfa núna, það er að segja ef enginn hefði gripið hana upp og komið henni í viðeigandi förgun. Trúlega er það að bera í bakkafullan lækinn að skrifa um plast svo oft er fjallað um það en förgun plast er stórt vandamál sem við stöndum frammi fyrir núna og ef við bregðumst ekki við og finnum lausnir erfa börnin og barnabörnin okkar vandamálið. Því hvet ég alla til þess að veiða plast.

Ég skora á Kára Kárason framkvæmdastjóra Vilko að taka við pennanum.

Lilja Jóhanna Árnadóttir

Áður birst í 25. tölublaði Feykis 2021

 

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir