Rokna fjör á Ronju :: Kíkt í leikhús

Frá æfingu á Ronju ræningjadóttur í Bifröst. Mynd: Gunnhildur Gísla.
Frá æfingu á Ronju ræningjadóttur í Bifröst. Mynd: Gunnhildur Gísla.

Þær eru orðnar ansi margar kynslóðirnar sem þekkja ævintýri sænska rithöfundarins Astrid Lindgren. Flestar núlifandi kynslóðir hafa lesið eða séð á sviði persónur á borð við Emil í Kattholti og Línu langsokk. Ronja nýtur líka vaxandi vinsælda. Það ríkti því mikil eftirvænting þegar börn, foreldrar og ömmur og afar mættu á frumsýningu á Ronju ræningjadóttur í Bifröst á sunnudaginn. Og eftirvæntingin hafði verið framlengd út af svolitlu sem við erum öll orðin ansi þreytt á. Svo ég noti nú orð ræningjaforingjans -sem reyndar bar það með sér að vera kominn með kulnun í starfi- „Dauði og drepsóttir-fari það í norður og niðurfallið.“

Fjöldi barna og fullorðinna kemur að sýningunni, alls 24 leikarar í enn fleiri hlutverkum, ásamt þeim sem starfa bak við tjöldin og eru ekki síður mikilvægur hluti af sýningunni. Hið unga tvíeyki, Emilíana Guðbrandsdóttir í hlutverki Ronju og Óskar Aron Stefánsson í hlutverki Birkis Borkasonar, eiga bæði stórleik og hafa mikla útgeislun. Lillý er enginn nýgræðingur á sviðinu í Bifröst og yrði ég hissa ef við ættum ekki eftir að sjá eitthvað meira til þeirra beggja í framtíðinni. Meðal annarra leikara eru nokkrar konur sem leika karlhlutverk. Einhvern veginn er það svo að karlar geta alltaf farið í kjól og sett á sig hárkollu og uppskorið hlátur en það virðist vera erfiðara fyrir konur að leika karlhlutverk. Þess vegna fannst mér sérlega eftirtektarvert hvað þeim tókst vel upp. Verð ég þar að hrósa sérstaklega hinni ungu Rannveigu Sigrúnu Stefánsdóttur, í einu af burðarhlutverkunum, en hún leikur ræningjaforingjann Borka.

Söngurinn í verkinu hljómaði fallega. Var meðal annars gaman að heyra til Lovísu, röggsamrar móður Ronju og sköruglegrar eiginkonu Matthíasar, sem leikin er af Sólveigu B. Fjólmundsdóttur, syngja einsöng. Sömuleiðis fannst mér Inga Dóra Ingimarsdóttir skemmtileg í hlutverki Valdísar, móður Birkis, og ekki síður skörugleg persóna þar á ferð. Frændsystkinin Elva Björk Guðmundsdóttir og Guðbrandur Guðbrandsson voru hnyttin að vanda og Elva fór á kostum í hinu skemmtilega hlutverki Skalla-Péturs. Þó ég nefni hér nokkur nöfn eiga raunar allir leikarar stórt hrós skilið fyrir leikgleði sína og frammistöðu. Það er auðsjáanlegt að það hefur verið gaman í Bifröst síðustu vikurnar og myndast góð stemming í hópnum.

Í leikriti þar sem stór hluti sýningarinnar byggir á hópatriðum getur verið erfitt að halda athyglinni. Þarna fannst mér takast vel til. Kóreógrafían í atriðunum var flott og allar persónur nutu sín. Hefur tekist vel til að gefa öllum aukapersónum karakter. Litli skratti (Flóra Rún Haraldsdóttir), Bersi (Hákon Snorri Rúnarsson), Breki (Haraldur Már Rúnarsson), Krákur (Hlífar Óli Dagsson), Lalli litli (Sylvía Rós Rögnvaldsdóttir), Stóri Björn (Þorgrímur Svavar Runólfsson), Budda (Kristey Konráðsdóttir), Grjóni (Sigurlaug Lilja), Brussa (Eva María Rúnarsdóttir) og Örvar (Alexander Franz Þórðarson) verða öll eftirminnilegar persónur, hvert með sinn einstaka karakter og líflega sviðsframkomu. Innkoma rassálfa, grádverga og skógarnorna er sömuleiðis óborganleg og það tekst meira að segja að gera hlutverk hermannanna bráðfyndin þó rullan bjóði ekki endilega upp á það.

Mér fannst búningarnir glaðlegir, fallega samstæðir og sannfærandi. Verð ég sérstakleg að minnast á hugvitssemina við útfærslu á rassálfunum. Lýsing er einföld en falleg og leikhljóðin sannfærandi. Falleg sviðsmyndin rammaði atriðin vel inn og eftirtektarvert hversu sannfærandi atriðið í vatninu varð með einföldum brellum. Það auðveldar líka áhorfandanum að lifa sig inn í sýninguna þegar sviðsmyndin og atriðin teygja sig fram í sal. Fallegur blómaveggur í þrívídd ásamt vorópinu hennar Ronju áttu sinn þátt í að láta mann gleyma svartasta skammdeginu og umhleypingunum í veðrinu í rúma tvo tíma. Heildaryfirbragð sýningarinnar er fallegt og gleður öll skilningarvit. Það er líka góður boðskapur á fordæmalausum tímum að við eigum að láta gamlar erjur lönd og leið og hugsa frekar um hvernig við getum stillt strengi okkar saman til að bæta samfélagið sem við búum í, hvort sem það er kastali eða hellir, bær eða sveit.

Ég óska leikhópnum hjá LS og Sigurlaugu Vordísi til hamingju með frábæra sýningu. Þar eru margir reynsluboltar á ferð en einnig nýliðar í brúnni, sem saman hafa lagt á sig ómældan tíma og erfiði við dæmalausar aðstæður. Það þurfti meira að segja að fresta frumsýningu nánast korteri áður en hún átti að byrja. Fyrir vikið getum við hin komið og skemmt okkur um stund. Að mínu mati er nánast samfélagsleg skylda að mæta í leikhús og hafirðu ekki farið lengi þá mun klárlega rifjast upp fyrir þér hvað það er óskaplega skemmtilegt.

/Kristín Sigurrós Einarsdóttir

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir