Sælan í sveitinni :: Áskorandinn Elín Lilja Gunnarsdóttir - Vatnsnesi

Margir sem maður talar við og hafa flutt búsetu sína frá æskuslóðunum fá ansi oft heimþrá en þannig er það svo sannarlega ekki hjá mér. Ég flutti búsetu mína úr Skagafirði yfir í Húnaþing vestra árið 2016 og gæti ég ekki verið hamingjusamari með þá ákvörðun, hér höfum við, ég og maðurinn minn Elmar Baldursson, byggt upp líf okkar og framkvæmt ansi mikið á síðastliðnum árum.

Ég hugsa oft um það hve heppin ég er. Það eru mikil forréttindi að fá að búa í sveit og ala börnin upp í kringum dýrin, sjá börnin vaxa úr grasi, dafna og mynda kærleiksrík og góð sambönd við dýrin.

Eins og margir vita eru samgöngurnar ekki ásættanlegar á Vatnsnesinu en þangað flutti ég alveg yst á Nesið og sé alls ekki eftir því. Þrátt fyrir að samgöngurnar séu ekki boðlegar þá er svo æðisleg og stórbrotin náttúrufegurðin sem er hérna á Vatnsnesinu og heldur maður bara í vonina um að einn daginn verði búið að gera veginn allan Vatnsneshringinn boðlegan allt árið um kring og þá verður ekkert annað en fullkomið að búa á Vatnsnesinu.

Húnaþing vestra er sveitarfélag sem ég tel að allir íbúar geti verið stoltir af. Það er ansi margt vel gert hjá sveitarfélaginu, til dæmis frekar gott skref sem var stigið fyrir fjórum árum síðan þegar sveitarfélagið byrjaði á því að bjóða tveimur elstu árgöngunum í leikskólanum að hafa möguleika á því að nýta skólaakstur ef það er laust pláss í skólabílunum. Með þeim möguleika eru mun meiri líkur á því að foreldrar í sveitinni sendi börnin frekar í leikskóla og nýtist tími bænda mun betur í þeirra vinnu í stað þess að þurfa að skutla börnunum í leikskóla enda getur vegalengdin verði ansi löng í sveitinni.

Félagslífið er virkilega öflugt í sveitarfélaginu og er öllum gefið tækifæri til þess að blómstra og finna eitthvað við sitt hæfi. Margt er í boði í þessu lita sveitarfélagi en dæmi um félagsstörf eru félag eldri borgara, sem hefur aldrei verið með eins öflugt félagsstarf og síðustu ár, Handbendi brúðuleikhús býður upp á alls konar námskeið og sýningar, leikfélagið sem hefur sett upp hverja stórsýninguna á fætur annarri, mikið kórastarf er í sveitarfélaginu og er nýjasti kórinn Rokkkrókinn í Húnaþingi vestra og hefur hann þá sérstöðu að vera eini rokkkrókinn þar sem allir hafa sinn eigin míkrófón á tónleikum. Já, það er óhætt að segja að það er nóg í boði fyrir alla þá sem vilja.

Þrátt fyrir að mér hafi liðið vel í uppeldis sveitarfélaginu mínu Skagafirði þá hefur mér aldrei liðið eins vel og í Húnaþing vestra. Það er óhætt að segja að það er gott að búa í Húnaþing vestra.

Ég skora á Eygló Hrund Guðmundsdóttir að skrifa pistil í Feyki.

Áður birst í 6. tbl. Feykis 2023.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir