Sagan af dúknum dýra - Dæmisaga til útleggingar

Ævaforn, fagurlega útsaumaður dúkur liggur útbreiddur á borðinu. Í þennan dúk höfðu horfnar kynslóðir í aldanna rás saumað þau spor sem prýddu hann. Í miðjunni var mynstrið stærst, en smærra mynstur dreifðist um dúkinn. Með jaðrinum voru saumaðir einskonar útverðir sem römmuðu inn dúkinn og gáfu honum sterkan heildarsvip.

En þessi fallegi dúkur var farinn að trosna. Sporin, einkum við jaðarinn, voru farin að rakna og þræðir að slitna úr vefnaðinum.

Konan sat hugsi og horfði á dúkinn. Íhugaði hvað hún gæti gert til að forða honum frá skemmdum eða eyðileggingu. Ef til vill væri best að rekja upp ysta mynstrið og klippa burt trosnuðustu jaðrana.

Ef ég geri það hugsaði konan, þá endar með því að að dúkurinn trosnar inn að miðju og mynstrið skemmist. Nei, það er ekki hægt. Þá missir dúkurinn þennan heildarsvip sem jaðarmynstrið gefur honum og sjarmi hans glatast. Líklega er best að finna viðeigandi garn og endurnýja sporin sem eru að rakna,- áður en þau hverfa alveg því þá getur verið erfitt að endurheimta upphaflega fegurð dúksins.

Og hún settist og bróderaði á ný löskuðu sporin. Sum voru við það að hverfa svo það var erfitt að átta sig á hvernig best myndi að lagfæra þau. Með elju og útsjónarsemi tókst henni að lagfæra mynstrið næstum að upphaflegu horfi. Best fannst henni þó að henni hafði tekist að koma í veg fyrir að dúkurinn raknaði upp inn að miðjumynstrinu, sem trúlega hefði þá farið sömu leið fyrr eða seinna.

Getum við heimfært þessa litlu dæmisögu upp á byggðina okkar?

Björg Baldursdóttir, skipar 3. sæti á lista VG og óháðra

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir