Skagfirðingar allir jafn mikilvægir

Opið bréf til Þuríðar Hörpu Sigurðardóttur varðandi stefnuskrá framboða um „allskonar fyrir aumingja“.

Frambjóðendur K – lista Skagafjarðar þakka fyrir kraftmikið bréf, góðar ábendingar og áleitnar spurningar.

Það eru mikilvæg mannréttindi að vera virkur þátttakandi í samfélaginu og viljum við að  hugmyndafræði um sjálfstætt líf verði höfð að leiðarljósi þegar fjallað er um þjónustu við fatlað fólk í Skagafirði,  enda þekkir fatlað fólk best sínar þarfir og veit hvernig best er að sinna þeim. Notendastýrð persónuleg aðstoð ( NPA ) er vissulega nýr valkostur en ekki endilega svar við öllu og því leggjum við áherslu á að gefa fólki svigrúm til að velja þjónustuúrræði sem það telur henta. Við teljum mikilvægt að fatlað fólk hafi áhrif á stefnumótun sveitarfélagsins  og þróun hugmyndafræði í málefnum fatlaðs fólks í Skagafirði. Það viljum við gera með því að koma á notendaráði sem verði ráðgjafandi við sveitarstjórn og stofnarnir sveitarfélagsins. Sveitarfélagið hefur áralanga reynslu í því að hafa ábyrgð á þjónustu við fatlað fólk á sinni könnu og hefur verið unnið markvisst að því að samþætta þjónustu við fatlað fólk annarri þjónustu sveitarfélagsins. Viljum við standa vörð um og efla það starf.

Við í K- lista Skagafjarðar leggjum áherslu á eftirfarandi atriði:

  • Við ætlum koma til móts við fatlað fólk í samræmi við samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.
  • Við ætlum að  koma á notendaráði fatlaðs fólks.
  • Við ætlum að vinna stefnu  í húsnæðismálum með þátttöku fatlaðs fólks.
  • Við ætlum að vinna áfram að þróun og innleiðingu notendastýrðrar persónulegrar aðstoðar.
  • Við ætlum að eyða biðlistum eftir búsetuúrræði og sjá til þess að búseta sé við hæfi hvers og eins.
  • Við ætlum að standa vörð um og efla samþættingu málefni fatlaðs fólks við aðra þjónustu sveitarfélagsins.
  • Við viljum tryggja að fjárframlög Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga endurspegli kostnað við þjónustuna.
  • Við viljum beita okkur fyrir því að sveitarfélagið geti boðið fötluðu fólki sértækt leiguhúsnæði fyrir sértækar þarfir.
  • Við viljum sjá að aðgengi við stofnanir sveitarfélagsins verði lagað og gert aðgengilegt fyrir alla.
  • Við ætlum að standa vörð um þjónustu Heilbrigðisstofnunarinnar þ.m.t. endurhæfingu og endurhæfingarlaug.

Gréta Sjöfn Guðmundsdóttir í  1. sæti á K lista Skagafjarðar
Sigurjón Þórðarson í 2. sæti á K lista Skagafjarðar
Hanna Þrúður Þórðardóttir í 3. sæti á K lista Skagafjarðar

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir