Staldrað við í núinu – Áskorandinn Inga María Baldursdóttir

Eftir að hafa lesið pistil síðustu viku þar sem Eyrún Sævarsdóttir fjallar um listina að lifa fannst mér tilvalið að halda örlítið áfram á þeirri braut. Það er nefnilega þetta með að lifa og njóta, hægja ögn á sér og staldra við í núinu.

Síðustu ár hafa farið í það að mennta sig, safna peningum fyrir húsnæði, eignast börn, koma börnunum á legg, vinna aðeins meira fyrir stærri bíl og stærra húsnæði. Vinnan fer að hafa forgang, áhugamálunum fer fækkandi, stundum barnanna á leikskólanum fer að fjölga ásamt því að samverustundum fjölskyldunnar fækkar. Við vorum farin að sjá á eftir þessum gæðastundum og tókum þá mjög stóra ákvörðun um að breyta til og prófa eitthvað allt annað.  Lengi vel vorum við búin að velta því fyrir okkur að fara erlendis til að læra annað tungumál og kynnast nýrri menningu. Við vildum flytja í land þar sem hraðinn væri minni, vinnudagurinn aðeins styttri og einfalt að aðlagast samfélaginu. Auk þess vildum við ekki fara of langt frá Íslandi svo einfalt væri að ferðast á milli.

Í maí á þessu ári fluttum við fjölskyldan því til Danmerkur. Margir hafa sterkar skoðanir á þessari ákvörðun okkar og vilja meina að það sé afar óskynsamlegt að segja upp vinnu, selja húsnæði og halda út í óvissuna. Ég vil meina að þetta sé stórkostlegt ævintýri sem allir fjölskyldumeðlimir njóta góðs af. Það er nefnilega þannig að Ísland fer ekkert á meðan við erum hérna og því alltaf hægt að koma aftur. Tilgangur ferðarinnar er fyrst og fremst sá að bæta við sig meiri menntun og sækja okkur reynslu til að taka með okkur aftur heim. Á þessum örfáu mánuðum höfum við upplifað stórkostlega hluti sem fjölskylda, við erum jú í þessu saman og hefur gæðastundunum fjölgað töluvert. Eldri strákurinn okkar er byrjaður á leikskóla og er orðin ansi fær í dönskunni. Við eigum nágranna sem koma frá Afríku, við fengum sól upp á hvern einasta dag í allt sumar og við fáum að hjóla í umhverfi sem er ansi langt frá því að vera flatt. Stundum þarf maður bara að skella sér í „þetta reddast“ gírinn og leyfa sér að njóta þess sem lífið bíður upp á. Við vitum ekkert hvert framhaldið verður en ef ekkert gengur upp komum við aftur heim, reynslunni ríkari með fangið fullt af ógleymanlegum minningum.

Ég ætla að skora á frænku mína og nöfnu Stefaníu Ingu Sigurðardóttur að taka við pennanum.

Áður birst í 34. tbl. Feykis 2018

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir